„Þig grunar ekki hver, en þetta er maðurinn þinn“

Mynd: Elma Lísa Gunnarsdóttir / Aðsend

„Þig grunar ekki hver, en þetta er maðurinn þinn“

12.10.2020 - 14:32

Höfundar

Þegar Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona kynntist Reyni Lyngdal, leikstjóra og eiginmanni sínum, voru þau ekki orðin tvítug, bæði starfsmenn á kaffihúsinu sáluga Café au lait í Hafnarstræti í Reykjavík. Þau urðu strax góðir vinir en byrjuðu ekki saman fyrr en mörgum árum síðar. Hjónin komu í Gestaboð til Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur og sögðu frá listinni, bónorðinu og bransanum.

„Ég hugsaði bara vá, hvar hefurðu verið allt mitt líf?“ segir Elma Lísa glettin um fyrsta fund hennar og eiginmannsins. Hún áttaði sig kannski ekki á að Reynir væri sálufélagi hennar þegar þau voru að laga kaffi í Hafnarstrætinu en í dag finnst henni gaman að rifja upp miðilsfund sem hún sótti á þessum tíma. „Hann var breskur, megamiðill, og hann sagði: Þú ert búin að hitta manninn þinn. Þig grunar ekki hver hann er en þetta er maðurinn þinn,“ segir Elma Lísa. „Ég tók þessu mjög bókstaflega, ég var í sambandi á þessum tíma sem Bretinn sagði að væri algjört waste of time.“

Allir strákarnir voru skotnir í Elmu Lísu

Reynir hafði séð Elmu Lísu áður en leiðir þeirra lágu fyrst saman þar sem hún vann Freestyle-keppnina í Tónabæ ár eftir ár. Keppnin var jafnan sýnd í sjónvarpinu og allir unglingar fylgdust með. „Allir strákarnir voru skotnir í Elmu og ég var þar á meðal,“ segir Reynir. Hann varð því stjörnulostinn þegar hann hitti dansdrottninguna í persónu nokkrum árum síðar, en eftir samstarfið á kaffihúsinu skildi leiðir um hríð. Þau hittust á ný þegar Elma var nýútskrifuð úr leiklistarskólanum og fór með hlutverk í auglýsingu sem Reynir leikstýrði og hafa ekki verið aðskilin síðan. „Þá gerðist eitthvað hjá mér og stuttu seinna vorum við byrjuð að vera saman,“ segir Elma og lítur á eiginmanninn. „Þú bauðst mér á Edduna. Við fórum á deit á Bláa barinn fyrir utan Pasta basta og urðum strax algjörar samlokur,“ Reynir rekur undir, „ástfangin upp fyrir haus.“

Mynd: RÚV / RÚV
Hér má sjá siguratriði Elmu Lísu í Freestyle 1987

Það var enda ekki liðið nema hálft ár í sambandi þeirra þegar Reynir fór á skeljarnar í Barselóna á Spáni. „Við vorum á veitingastað á höfninni, mjög fínum, ég með hring í vasanum. Við rosa ung og höfðum varla efni á að vera þarna,“ segir hann. Reynir var stressaður en aldrei í vafa um ákvörðunina. „Ég var alveg viss og vonaði að hún segði já.“ Þau hafa alltaf fagnað brúðkaupsafmælinu síðan með því að fara út að borða, jafnvel stundum í helgarferð til útlanda. „Við gefum hvort öðru pakka og skrifum eitthvað sætt. Mér finnst svona skipta miklu máli, að halda í þetta þó maður hafi verið saman lengi.“

Andlátið litaði æskuna mikið

Elma Lísa átti einn eldri bróður þegar hún fæddist en hann lést í bílslysi þegar hún var aðeins þriggja ára. „Andlátið litaði æskuna mikið. Þegar maður lendir í svona lærir maður að lifa með því en sættir sig ekki við það,“ segir hún. Elma flutti tíu ára í Vesturbæinn í Reykjavík og byrjaði þá að dansa og segir að það hafi mjög líklega bjargað henni frá rugli. Hæfileikar hennar á því sviði fóru ekki framhjá mörgum og stefndi hún lengi vel á að verða atvinnumaður. Hún gerðist fyrirsæta um tíma og fór til Mílanó á Ítalíu og Grikklands til að sitja fyrir þegar hún var 21 árs. „Ég hef alltaf verið með mikla útþrá og þetta var partur af því,“ segir hún. En hún uppgötvaði líka að það sem hún naut mest við fyrirsætubransann var leiklistinn.

Sögðu að hún væri heppin að komast inn á útliti

Tveimur árum síðar komst hún inn í leiklistarskólann og þá sögðu margir við hana að hún væri heppin að það hefði verið valið eftir útliti það árið. Hjónin hlæja að því í dag. „Það voru og eru kannski enn fegurðarfordómar í samfélaginu en fallegt fólk getur alveg gert hluti líka. Verið klárt og allt það,“ segir Reynir.

Sjálfur er hann alinn upp af kennarahjónum en amma hans vildi lengi vel að hann yrði prestur. „Ég viðurkenni að ég hugsaði það en það komu fljótt upp þessir leikstjóradraumar,“ segir hann. Hann lærði ljósmyndun í grunnskóla og varði miklum tíma í myrkraherberginu. Eftir það leit hann aldrei um öxl. „Frá því ég var átta níu ára teiknaði ég senurnar úr bíómyndunum sem ég sá. Svo þegar ég var um fjórán ára fékk ég verðlaun á hátíð sem heitir Stuttmyndadagar í Reykjavík.“

Ef hann hefði verið afbrýðisamur hefði þetta aldrei virkað

Þau Elma Lísa og Reynir styðja hvort annað og hvetja bæði í leik og starfi og segja að það komi sér vel að vinna í sama geira. „Það að eiga maka sem skilur bæði gleðina og sorgirnar í því að vera skapandi einstaklingur er gulls ígildi. Tilfinningarnar sem fylgja því að færa eitthvað fram sem maður býr til, bíómynd, áramótaskaup, stuttmynd eða leikrit. Þó það sé ekki alveg nógu gott þá er maður stoltur en á sama tíma finnst manni það aldrei nógu gott. Þá er gott að hafa bakland sem bakkar mann upp þegar maður er viðkvæmastur,“ segir Reynir. Elma er sammála. „Það er eftiminnilegt þegar ég var að leika í nektarsenu með Ólafi Darra í Roklandi og átti að vera allsber. Reynir sagði: Þú getur þetta, ferð alla leið. Ekki pæla í mér,“ rifjar hún upp. „Hann skildi þetta algjörlega Ef ég hefði verið tepra og hrædd eða hann afbrýðissamur hefði þetta aldrei virkað.“

Viðkvæmni er mikilvægur partur af skapandi vinnu sem oft krefst þess að fólk gangi nærri sér, segir Reynir. Dagarnir eru oft langir hjá þeim og strembnir. „Starf leikara og leikstjóra, það er unnið í tólf tíma og fram eftir á kvöldin og að hafa hlýjan faðm á kvöldin að hlaupa í,“ segir Reynir og Elma bætir við: „Það er svo ótrúlega mikilvægt. Og gaman að deila áhugamáli, þetta er svo mikil ástríða.“

Nóg um að vera í höfundaherbergi Áramótaskaupsins

Elma segir að eiginmaðurinn hafi rosalega gott lundarfar og sjálf verði hún oftar döpur en hann en þá er hann til staðar. „Það er ótrúlega gott að hafa faðminn þá,“ segir hún. „Ég var reyndar að reyna að koma sjö ára dóttur okkar í skólann í morgun og hún er þrjóskari en andskotinn. Hún er lík pabba sínum,“ skýtur Reynir inn. „Ég var ekki svona glaður og hress þá.“ Í kringum Elmu segir hann hins vegar að yfirleitt ríki gleði og hamingja. „Þó ég hlæi dátt þá finnst mér Elma brosa oftar en ég,“ segir hann.

Reynir leikstýrir Áramótaskaupinu í ár eins og í fyrra og hann segir að það sé af nægu að taka í ár. „Við erum enn að skrifa. Þessi prósess byrjar og endar með að þetta þarf að vera vel skrifað og útfært og það er kapphlaup við tímann að ná að skrifa sketsana,“ segir hann. Ekki hefur enn verið raðað í hlutverk en eiginkonan fór sjálf með nokkur á síðasta ári þegar hópurinn fékk Edduna fyrir skemmtiþátt ársins. Elma fór með hlutverk Jókersins, lék Nönnu Kristínu í Pabbahelgum og konu á trampólínu með þvagleka. Henni finnst frábært þegar eiginmaðurinn leikstýrir henni og þau hafa lengi talað um að vinna saman að verkefni þar sem Reynir myndi leikstýra og Elma færi með aðalhlutverkið.

Hér er hægt að hlýða á allt viðtalið og eldri þætti Gestaboðs í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Myndlist

„Að vera barin niður er það besta sem kom fyrir mig“

Leiklist

„Ég vissi strax að þetta væri minn maður“