Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þessi vika mun skera úr um árangurinn

12.10.2020 - 11:49
Fundur almannavarna 12.10.2020
 Mynd: Almannavarnir - Ljósmynd
Þessi vika mun skera úr um hvort þær sóttvarnaaðgerðir, sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirufaraldursins, skili tilætluðum árangri. Sóttvarnalæknir segir að of snemmt sé að hrósa happi. Hlutfall þeirra sem hafa lagst inn á sjúkrahús vegna COVID er jafnhátt núna í þriðju bylgju faraldursins og í þeirri fyrstu. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna og ríkislögreglustjóra í morgun.

Fundurinn var með nýju sniði, en hann var sendur út með fjarfundabúnaði og því engir blaðamenn viðstaddir.  Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að taka þyrfti niðurstöðum greininga um helgina með fyrirvara.

„Ég held að vikan nú muni skera úr um hvort aðgerðirnar hafi tilætluð áhrif. Það er of fljótt að ætla að hrósa happi, við þurfum halda áfram að standa okkur,“ sagði Þórólfur.

Hann sagði að verið sé að nálgast skólahald með sama hætti og síðasta vetur Upplýsingar frá rakningateymi bendi til þess að smit sé ekki útbreitt í leik-og grunnskólum og smitin komi helst utan frá. Alþjóðlegar leiðbeiningar frá bæði OECD og WHO byggist á því að reyna að halda skólahaldi í sem eðlilegustu horfi.

 

„Þær aðgerðir sem gripið var til núna valda allskonar afleiðingum,“ sagði Þórólfur og sagði vanta í umræðuna hvað myndi gerast væri litlar sóttvarnaaðgerðir. Ef tíu prósent myndu sýkjast myndi það valda ýmsum samfélagslegum skaða, 1.200 til 3.600 þyrftu að leggjast inn, fjöldi fólks gæti þurft að leggjast inn á gjörgæslu, þyrftu á öndunarvél að halda og jafnvel 200 myndu látast. Fólk gleymi þessu í umræðunni um hertar aðgerðir. Til að ná fram hjarðónæmi þyrfti 60% þjóðarinnar að mynda ónæmi gegn veirunni.

Alma Möller landlæknir sagði að í fyrstu bylgju faraldursins hefðu 3,5% þeirra sem smituðust þurft innlögn á spítala og sama hlutfall hefði farið á spítala nú. Hlutfall þeirra sem fóru á gjörgæslu í fyrstu bylgjunni var 0,8% en nú er það 0,3%.

Alma sagði að yfirvöld geti eflaust gert betur til að sporna gegn svokallaðri farsóttarþreytu, til dæmis að hafa skilaboðin skarpari og beina þeim til ákveðinna hópa. „Það eru öll lönd að glíma við það að halda smitum í skefjum með sem minnstum áhrifum á daglegt líf,“ sagði Alma. 

Þórólfur sagði úrlausnarefnið alltaf vera það sama; hvernig aðgerðirnar gangi. Það sé aðalmálið að fylgjast með hvernig gangi að ná niður nýgengi smita. Ómögulegt væri að gefa út fram í tímann til hvaða aðgerða yrði gripið ef staðan breytist. „Það þarf að taka tillit til fjölmargra þátta. Ég vildi óska þess að það væri hægt að segja nákvæmlega fram í tímann og vera með fyrirsjáanleika en það er bara svo margt sem er ófyrirsjáanlegt í þessu.“