Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Stórfengleg heimsreisa í tíma og stöðum

Mynd: - / cc

Stórfengleg heimsreisa í tíma og stöðum

12.10.2020 - 11:40

Höfundar

Tapio Koivukari, hinn finnski, hefur hingað til helst vakið athygli hér á landi fyrir skáldsögur sínar í þýðingum Sigurðar Karlssonar og einnig hefur hann þýtt fjölda íslenskra höfunda á finnsku. Nú hefur hann sent frá sér ljóðabók orta á íslensku.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Það er ekki heiglum hent að yrkja á öðru máli en móðurmálinu. Vitanlega hefur það verið gert um aldir, til að mynda á latínu þegar það var bókmenntamál og móðurmálin eldhúsmál. Sjaldnar í seinni tíð, eftir að móðurmálshreyfingin gekk frá latínunni og skóp það sem við köllum þjóðarbókmenntir og fólk tók að tengja sjálfsmynd sína við þær og móðurmálið. En oftast voru það skáld og rithöfundar sem tilneydd voru til að rita á nýju tungumáli, til að mynda Vladimir Nabokov og Milan Kundera. Að ógleymdum þeim fjölmörgu frá fyrrum nýlendum Evrópu, sem ortu og skrifuðu á máli nýlenduherranna, tók þeim þó að fjölga með auknum flutningum fólks um Evrópu. Í Þýskalandi voru meira að segja veitt verðlaun frá 1985, einungis ætluð skáldum með annað móðurmál, Adelbert von Chamisso-verðlaunin, nefnd eftir frönsku skáldi sem orti á þýsku, flóttamanni frá Frakklandi við upphaf nítjándu aldar. Ég minnist þess einnig frá námsárum mínum á tíunda áratugnum í Þýskalandi að töluverður fjöldi skálda og rithöfunda var að spretta upp sem svo var ástatt um. Innflytjendur. Nöfnin eru of mörg til að nefna hér en þau settu þýskuna á hreyfingu, ekki með enskuslettum, heldur með nýrri hrynjandi, hrynjandi sem var svo lík og samt svo öðruvísi. Svona svolítið eins og hjá Samuel Beckett.

Nú eru allmargir með annað móðurmál en íslensku farnir að rita á voru ástkæra ylhýra og er það vel, þótt ekki fari það mjög hátt. Tapio Koivukari, hinn finnski, hefur hingað til helst vakið athygli hér á landi fyrir skáldsögur sínar í þýðingum Sigurðar Karlssonar og einnig hefur hann þýtt fjölda íslenskra höfunda á finnsku, en nú hefur hann sent frá sér ljóðabók orta á íslensku. Nú er íslenskukunnátta skáldsins af þeirri stærðargráðu að maður sér engan hreim og heyrir ekki við að lesa upphátt. Samt læðist einhver ný hrynjandi inn í málið, finnst mér að minnsta kosti, ég skora á lesendur að lesa upphátt. Þetta er skemmtilegt, en ekki eru ljóðin síður ánægjuleg, þau tengja saman heimssöguna og hnöttinn við minnstu pláss um víða veröld.

Innfirðir skiptist í fjóra bálka sem heita: Vestfirðir, Suðfirðir, Fjarðleysa og Innfirðir. Strax á þessum yfirskriftum má sjá örla á þessari framandi hrynjandi og orðasköpun úr öðru máli. Orðin suðfirðir og fjarðleysa koma ekki fyrir í orðasöfnum Árnastofnunar á netinu og mér er til efs að þau finnist í einhverjum seðlasöfnum. Þau eru öðruvísi, en um leið fullkomlega rökrétt íslenskt mál, skapandi nýjungar. Um leið eru þetta raunverulegar landfræðilegar tilvísanir þar sem ljóðin í bókinni vísa oft til tiltekinna staða og þau byrja á Flateyri þar sem ljóðmælandi virðist hafa verið að vinna í fiski um aldmótin síðustu:

Flateyri I

Úti gleymast
flökin á færibandi.
Milli fjalla
speglast í firðinum
gullinn himinn.
Línubátar koma í land,
rista djúpt.
Á helginni
brotna rúður.
Ælan fellur
á hjarnið.
Blóð skvettist
í skærrauða depla.

Hér má greina hvernig skáldið lagar sig að íslenskri hefð með töluverðri stuðlun, gerir ljóðið þannig íslenskara, en við sjáum í næstu ljóðum um Flateyri að sjónarhornið er útlendingsins eins og í lokum þess þriðja: „Flestir okkar / þáverandi útlendinganna / vorum brátt úr sögu þorpsins.“ Örlítil íronísk vísun til Íslendinga sagna þar sem ýmsir voru „úr sögunni“.

Ljóðmælandinn er síðan kominn til Ísafjarðar eins og hann hafi flutt þangað og þar er einhver sem segir honum að hann þurfi „ekki að fara neitt.“ Ljóðið Ögur leiðir okkur síðan að sögum um hvalfangarana basknesku sem Ari í Ögri lét drepa í fjöldatali og höfundurinn hefur líka skrifað um skáldsögu og kom hún út hér á landi 2012. Vestfjarðarbálkinum lýkur svo með mynd af múrmönskum togara í höfn þar sem ljóðmælandinn ræðir við skipverja á móðurmáli þeirra og hann spyr hvernig þeim gangi: „Kak déla?“ Svarið er „Normalno.“ Ljóðmælanda verður þá að orði: „Já, auðvitað, hvað annað / en normalno / þar sem sólin skín / og enn er til tóbak.“

Annar bálkurinn, Suðfirðir, hefst á ljóði um Keflavík og það er svolítið eins og fyrsta menningaráfallið við komuna til Íslands og ljóðmælandinn spyr að lokinni lýsingu:

Hér er fræga
íslenska náttúran:
grjót
snjór
rok
myrkur.

Hvert er ég eiginlega
kominn?

Eftir stutta viðkomu í Grindavík og Heimaey vendir skáldið síðan kvæði sínu í kross og skrifar tvö ljóð um uppeldi barna ef maður vill vera leiðinlegur, en þetta eru reyndar ljóð um ógæfu barna í forneskjulegum aðstæðum, það er blær forboðinna ævintýra yfir þeim. Lengra er haldið, miklu lengra, til Baskalands og hafnarbæjarins Getaria, þar sem landkönnuðurinn baskneski, Juan Sebastian Elcano, gnæfir sem stytta, stolt þorpsins, maðurinn sem fyrstur fór umhverfis jörðina og týndi Magellan sjálfum á leiðinni. Ljóðmælandinn spyr: „Var þetta þá byrjunin / á hnattvæðingunni?“ Það má með sanni segja, hér tengjast firðirnir fjarlægu einhvern veginn þeim íslensku, héðan hafa menn róið til fiskjar um aldir þótt meira sé um dali en fjöll. Við förum áfram til bæjar sem nefnist Ordizia þar sem afi Marteins fæddist, „hans sem var veginn á Íslandi / á sínum tíma.“

Ljóðmælandinn fer með okkur víðar um heiminn, næst til Eistlands og það má lesa skemmtilegar bollaleggingar um uppruna orða eftir hlutum þeirra; og þá skilst betur hvaðan hugmyndin að orði eins og „fjarðleysa“ kemur; stundum tekur maður sem útlendingur betur eftir orðhlutunum og hefur stundum gaman af. Ferðalaginu er samt hvergi nærri lokið og í Fjarðleysu erum við komin til suðurstrandar Finnlands, og fáum dálítið sósíalrealíska lýsingu á lífi verkamanna andspænis þeim sjötíu árum sem það tekur tré að verða að pappírsrúllu.

Langlengsta ljóðið í bókinni og með langlengsta titilinn heitir „Eigi veit ég það svo gjörla / en einhvursstaðar hef ég heyrt“ og eru það vangaveltur um uppruna fólksins í Rauma, kaupstað sem nú er inni í landi, en var við sjóinn áður en land reis þar. Þar fáum við hnattvæðinguna fyrir tíma hnattvæðingarinnar með dálítið íslenskum hætti eins og titillinn á ljóðinu gefur strax til kynna; það er meira að segja ofið dálítið skemmtilegri finnskri Herúlakenningu inn í þessar vangaveltur um þjóðflokk sem hvarf frá Rínarbökkum og „[s]tuttu eftir / birtust nýmóðins grafir í Eura / vestar í héraðinu. Og lögðu menn í þær / betri járngripi / en þangað til höfðu tíðkast. Eurverjar eru annars / rauðleitir í framan / og frekar ölkærir / eins og alvöru Germanar.“ Og þannig heldur ljóðmælandinn áfram með vangaveltur sínar, í samræmi við þá staðreynd að góð saga er betri en óskjalfest eyða og lýkur hann ljóðinu á línum sem vísa sterklega til íslenskra miðaldabókmennta.

Síðasti bálkurinn, Innfirðir, er á persónulegri nótum þótt sumum þráðum bókarinnar sé fram haldið, sérstaklega endurtekur sonarminnið sig, bæði í alvöru og góðlátlegu gríni. Lokaljóðið er hins vegar stingandi sárt þótt ekki sé beinlínis sagt hvað sorginni veldur. Það er líka eðlilegt að láta lesendum eftir að túlka það að lokinni svo stórfenglegri heimsreisu í tíma og stöðum, frá Íslandi til Baskalands, umhverfis jörðina og til Eistlands og Finnlands og allt í kunnuglega framandi hrynjandi.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Predikarastelpan - Tapio Koivukari

Nándarmörk eru ekkert vandamál fyrir Finna

Bókmenntir

Glíman við finnskuna