Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skilar fornminjum af ótta við álög

12.10.2020 - 06:29
Erlent · Fornleifar · Ítalía · Kanada
epa07116668 The remains of five people, probably two women and three children, were found in a during excavations in Pompeii, Italy, 24 October 2018. The group probably took refuge in the bedroom in a desperate attempt to escape a shower of volcanic rocks that had filled the house.  EPA-EFE/CIRO FUSCO
 Mynd: EPA
Kanadísk kona á fertugsaldri sendi leirbrot sem hún hafði tekið með sér frá rústum Pompeii fyrir nokkrum árum aftur til Ítalíu á dögunum. Hún telur álög hafa fylgt fornleifunum.

Konan, sem aðeins er nefnd Nicole í Guardian, sendi böggul til ferðaskrifstofu á sunnanverðri Ítalíu. Inni í honum tvær mósaíkflísar, brot úr leirkeri og annað af keramikstyttu. Þessu hafði hún stungið með sér heim til Kanada eftir að hún fór að skoða fornleifarnar í Pompeii árið 2005. Í bréfi sem fylgir bögglinum kennir hún hnupli sínu um misfarir sínar síðan. Hún hefur til að mynda tvisvar á þessum fimmtán árum greinst með brjóstakrabbamein, auk þess að hafa átt í fjárhagserfiðleikum. Þegar hún tók hlutina hafi hún gert það til þess að eiga hluta af sögunni sem enginn annar gæti átt. Gripirnir hafi hins vegar í för með sér mikla neikvæða orku í tengslum við þetta svæði eyðileggingar. 

Það var ekki aðeins Nicole sem þurfti að létta af sér. Í bögglinum var einnig játning frá kanadísku pari, ásamt steinum sem þau tóku úr borginni árið 2005. Parið baðst afsökunar á að hafa hirt munina án þess að hugsa út í þjáningar fórnarlamba eldgossins.

Pompeii hvarf undir ösku eftir gríðarlegt eldgos í Vesúvíusi árið 79. Rústir borgarinnar fundust á 16. öld, og gáfu góða innsýn í líf fólks á fyrstu öld okkar tímatals. Vegna þess hve hratt hlutirnir gerðust í eldgosinu hafa minjarnar varðveist einstaklega vel.

Í gegnum tíðina hefur yfirvöldum borist svo mikið af munum sem sakbitnir ferðalangar hafa skilað að sérstakt safn hefur verið opnað með þeim.