Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ný rannsókn staðfestir möguleikann á að smitast aftur

12.10.2020 - 23:07
epa08678439 A nurse wearing her personal protective equipment (PPT) treats a Covid-19 patient in the intensive care unit of Saint-André hospital in Bordeaux, France, 18 September 2020. According to recent reports, the number of Covid-19 patients in intensive care units in the Bordeaux region have increased leading Bordeaux into the red zone.  EPA-EFE/CAROLINE BLUMBERG
 Mynd: epa
Líkur eru taldar á því að þeir sem smitast af kórónuveirunni í annað sinn, fái verri einkenni en í fyrra skiptið samkvæmt nýrri rannsókn sem birt hefur verið í vísindatímaritinu Lancet. Fólk sem veikist verði því ekki sjálfkrafa ónæmt fyrir veirunni.

Í rannsókninni er fjallað um fyrsta staðfesta tilfellið í Bandaríkjunum um einstakling sem veiktist öðru sinni af COVID-19. 25 ára karlmaður í Nevada-ríki veiktist af tveimur mismunandi veirustofnum með 48 daga millibili í vor. Í seinna skiptið varð hann mun veikari en í það fyrra og lá á gjörgæsludeild í öndunarvél.

Rannsóknin sem greint er frá í Lancet tók einnig til fjögurra annarra sem veiktust öðru sinni, í Belgíu, Hollandi, Hong Kong og Ekvador. Í umfjöllun AFP-fréttastofunnar telja sérfræðingar sem rætt er við að þetta geti haft mikil áhrif á það hvernig heimsbyggðin tekst á við faraldurinn. Ekki sé hægt að treysta því að einstaklingar myndi ónæmi fyrir veirunni með því að veikjast einu sinni og því sé þróun bóluefnis enn mikilvægari en áður var talið.

Gætu verið að smitast aftur án þess að vita það

„Sá möguleiki að geta smitast öðru sinni af veirunni getur umturnað því hvernig við tökumst á við COVID-19. Við þurfum enn frekari rannsóknir til þess að fullvissa okkur um hversu lengi ónæmið gildir fyrir þá sem hafa þegar veikst og af hverju sjúkdómurinn leggst harðar á þá sem veikjast öðru sinni, þó tilfelli um slíkt séu ekki mörg,“ segir Mark Pendori hjá Nevada State-háskólanum og forsvarsmaður rannsóknarinnar.

Höfundar rannsóknarinnar setja fram tilgátur um að maðurinn í Nevada, sem veiktist verr í seinna skiptið, hafi fengið meira af veirunni í sig þá og það hafi leitt til verri einkenna. Eða þá að sá veirustofn hafi einfaldlega verið skæðari. 

Höfundarnir ítreka einnig að aðeins eru örfá þekkt tilfelli af einstaklingum sem hafa veikst á ný eftir að hafa þegar fengið COVID, af þeim tugum milljóna sem hafa veikst í heiminum. Hins vegar séu mörg tilfelli þannig að engin einkenni koma fram, og því sé ómögulegt að segja til um það hjá þeim sem veikjast hvort þeir séu í raun að smitast í fyrsta eða annað sinn.