Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Neanderdalsgen valda meiri COVID-einkennum

epa01671044 The reconstruction of a Neanderthal woman (R) and man (L) at the Neanderthal Museum of Mettmann, Germany, 20 March 2009. As spring is here, the Neanderthal man gets the company of a woman - red-haired and in her twenties - who wears her most
 Mynd: EPA - DPA
Erfðir frá neanderdalsmanninum hafa áhrif á einkenni COVID-19 á fólk. Ný rannsókn sýnir að fólk, sem er með tiltekna breytileika á svæði á litningi 3, fær alvarlegri sýkingu og einkenni en aðrir. Þetta svæði er talið vera komið frá neanderdalsmönnum. 

Frá þessu er greint á Vísindavef Háskóla Íslands en þar svarar Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands, þessari spurningu: Er eitthvað til í því að gen frá neanderdalsmönnum valdi verri COVID-19 sjúkdómi?

Arnar segir að að meðaltali séu Evrópu- og Asíubúar með 1-3% erfðaefnis síns frá neanderdalsmönnum og á bilinu 4-8% Evrópubúa hafi  áðurnefndan breytileika í litningi 3. „Tíðnin í Asíu er lægri en í Evrópu og þessi breytileiki fyrirfinnst ekki í Afríku,“ segir Arnar. „Einhverntímann varð blöndun á milli neanderdalsmanna og forfeðra Evrópu- og Asíubúa og það flæddu einhver gen inn í Homo Sapiens,“ segir Arnar.

Hann segir að þessi breytileiki á litningnum hafi í för með sér aukna áhættu á alvarlegum einkennum COVID-19 sýkingar, en þurfi ekki að hafa slíkt í för með sér. „Þetta er ekki klippt og skorið. Það er auðvitað mikið af fólki sem er með þennan breytileika og fær COVID-19 án alvarlegra einkenna. Og mikið af fólki sem ekki er með breytileikann fær alvarleg einkenni. Þannig að það má segja að þetta sé áhættuaukning.“

Arnar segir að þýðing þessa breytileika í litningi 3 hafi ekki komið í ljós fyrr en nú, eftir að faraldurinn breiddist út. „Þetta er hættulegt við þær aðstæður sem við búum við núna og hefði hugsanlega ekki komið í ljós hefði faraldurinn ekki orðið.“

En á þetta við um önnur gen frá neanderdalsmanninum? Geta þau öll reynst okkur hættuleg undir vissum kringumstæðum? „Nei, alls ekki,“ segir Arnar. „Það eru vísbendingar um að sum gen, sem rakin eru til neanderdalsmannsins, hafi komið okkur vel. Hugsanlega nýttist þetta gen, þessi breyting á litningi 3, við varnir gegn öðrum veirum á tíma neanderdalsmannsins sem eru ekki til í dag.“