Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Myndi deyja fyrir fossinn sinn

Mynd: RÚV/samsett mynd / Anton Brink

Myndi deyja fyrir fossinn sinn

12.10.2020 - 14:40

Höfundar

Sigríður í Brattholti var frumkvöðull og einn kunnasti náttúruverndarsinni Íslandssögunnar. Hún var tilbúin að fórna lífi sínu til að koma í veg fyrir að Gullfoss yrði virkjaður. Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur hefur nú gefið út sögulega skáldsögu um Sigríði og baráttu hennar, Konan sem elskaði fossinn.

Að sögn Eyrúnar var Sigríður í Brattholti langt á undan sinni samtíð í náttúruvernd, „eiginlega á undan sinni framtíð líka,“ segir hún í samtali við Morgunútarpið á Rás 2. „Sigríður var fædd 1871. Faðir hennar lét véla sig til að leigja fossinn til virkjana og hún var ekki sátt við það.“ Föður hennar snerist svo hugur og málið endaði fyrir dómi sem þau töpuðu 1918. „Þá hótaði Sigríður að henda sér í fossinn ef til þess kæmi að fyrsta skóflustungan að virkjun væri tekin.“ Ef af virkjuninni hefði orðið væri Gullfoss ekki til í dag. Sigríður hefur lengi verið Eyrúnu hugleikin og hún skrifaði um hana langa grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1993.

Sigríður fór margar ferðir til Reykjavíkur í baráttu sinni fyrir vernd Gullfoss, stundum ríðandi en líka fótgangandi. Þar þurfti hún meðal annars að hitta lögfræðing sinn, sem var Sveinn Björnsson síðar fyrsti forseti Íslands. Í upphafi naut barátta hennar þó lítillar samúðar meðal almennings. „Fólk hafði enga hugmynd um umhverfismál. Íslendingar hafa alltaf mikla matarást. Meira að segja skáldin sem ortu um Gullfoss voru tilbúin að fórna honum undir virkjun.“ Eyrún segir að ein ástæðan fyrir því að fólki fannst í lagi að virkja fossinn hafi verið sú að hann var mjög afskekktur á þessum tíma. Fólk þurfti að leggja leið sína yfir mörg stórfljót til að komast að honum. „En það kemur alveg enn þá fyrir í dag að mönnum finnst allt í lagi að fórna fossum vegna þess að þeir séu afskekktir. Menn voru líka alveg að tala um að virkja Gullfoss fram undir 1970.“

Síðar hófst svo önnur barátta um Gullfoss. „Guðrún bjó í Brattholti með fósturbróður sínum sem verður bóndinn. Hún selur honum jörðina því kona gat ekki búið með bróður sínum og hún ætti jörðina, það þótti ekki við hæfi. Þau gera með sér munnlegt samkomulag um að hún eigi Gullfoss en hann svíkur það um leið og selur ríkinu fossinn án kvaða um verndun. Hún kemst að þessu síðar þegar hún kemur að mönnum að mæla fossinn.“ Í bókinni er líka snert á einkalífi Sigríðar sem ekki eru til margar heimildir um þannig að Eyrún nýtir sér skáldaleyfið óspart og getur í eyðurnar. „Sögulega skáldsagan höfðar til stærri lesendahóps og gefur mér frelsi. Svo ef fólk hefur áhuga á að vita hvað er satt og hvað ekki setti ég aflátsbréf sagnfræðingsins aftast með heimildum fyrir þá sem hafa áhuga.“

Rúnar Róbertsson og Sigmar Guðmundsson ræddu við Eyrúnu Ingadóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Arnhildur og Kári verðlaunuð á Degi íslenskrar náttúru

Kvikmyndir

„Þessi miðlunarlón eru barn síns tíma“

Bókmenntir

Heiða bóndi fær góðar undirtektir í Bretlandi

Umhverfismál

Sveinn hlaut náttúruverndarviðurkenninguna