Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mörg úrvalshross flutt úr landi seinustu ár

12.10.2020 - 11:39
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Frá því árið 2015 hafa rúmlega 700 fyrstu verðlaunahross verið flutt úr landi og seld. Um 400 1. verðlauna stóðhestar hafa verið seldir úr landi og um 300 1. verðlauna merar.

Þetta kemur fram í samantekt Eiðfaxa. Þar má sjá lista yfir 1. verðlauna stóðhesta sem fluttir hafa verið út frá ársbyrjunar 2015 til 1. október í ár. Á hverju ári eru flutt út á bilinu 1.100 til 1.500 hross. Stærstur hluti þeirra fer til Þýskalands, en einnig talsvert til Svíþjóðar og Danmerkur. Af þeim 8.556 hrossum sem flutt hafa verið út frá árinu 2015 hafa 702 hlotið 1.verðlaun, eða um 8 prósent útfluttra hrossa.

Það sem vekur athygli er hversu stór hópur hrossanna hefur hlotið 1. verðlaun.  1.verðlauna hross í kynbótadómi eru þau hross sem hljóta 8,00 eða hærra í aðaleinkunn.

Hæst dæmdi stóðhestur á listanum er Þórálfur frá Prestbæ, en hann hlaut 8,94 í aðaleinkunn sem þá var heimsmet. Hann var fluttur út árið 2017.  Þráinn frá Flagbjarnarholti sló það heimsmet árið 2018 með aðaleinkunnina 8,95.  

Á listanum má einnig finna hross sem gerðu garðinn frægan á keppnisbrautinni á Landsmótum eins og Konsert frá Hofi. Hann stóð efstur í 4.vetra flokki stóðhesta á Landsmóti 2014. Hann er enn hæst dæmdi 4 vetra stóðhestur allra tíma.  

Rétt er að taka fram að Kveikur frá Stangarlæk, sem vísað er til hér að ofan er ekki á lista Eiðfaxa þar sem hann verður ekki fluttur út fyrr en síðar í mánuðinum.