Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Líst illa á umhverfisgjald en leggur til kílómetragjald

12.10.2020 - 09:25
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda líst illa á hugmyndir tveggja þingmanna Vinstri grænna um að veita sveitarfélögum heimild til að innheimta umhverfisgjöld, meðal annars af mengandi bílum. Ólafur Þór Gunnarss og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hafa lagt þetta til á Alþingi.

„Ég skil alveg hugmyndafræðina og hugsunina á bak við þetta – þetta er reyndar í sjötta sinn sem þau leggja þessa þingsályktunartillögu fram – en enn einn skattstofnin á ökutæki og heimilisbílinn, það er eitthvað sem ég á mjög erfitt með að sjá að geti verið raunhæft,“ sagði Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, í Morgunútvarpi Rásar 2.

„Við sjáum það að ríkið er innheimta um 80 milljarða af bílum og umferð á hverju ári. Sveitarfélögin geta alveg ásælst hluta af því til einhverra verkefna, en, eins og ég segi, ég sé ekki að það sé svigrúm, hvað þá í núverandi ástandi, til að bæta enn á fjölskyldurnar í landinu.“

Vill einfalda kerfið með kílómetragjaldi

Nú þegar séu innheimtir skattar á eldsneyti, bifreiðagjald, vörugjöld við innflutning á bílum og virðisauki sem allt renni til ríkisins. Hann telji þetta allt með þegar hann reikni sig upp í 80 milljarða. Rætt hafi verið um hvernig rafbílaeigendur sem ekki greiði eldsneytisgjald eigi að koma að fjármögnun vegakerfisins og FÍB hafi stungið upp á því að einfalda kerfið.

„Þannig að það verði farið í svokallað kílómetragjald og þá verði bara borgað af bílum miðað við ekna kílómetra. Það verði búin til einhver reikniformúla sem gengur út frá þyngd og koltvísýringsmengun viðkomandi ökutækis og þannig gætum við fengið mjög sanngjarna skattheimtu,“ segir Runólfur og fullyrðir að þetta yrði tæknilega mjög einfalt enda sé lesið af kílómetramæli reglulega. Fólk geti þá áætlað á sig kílómetranotkun og gjaldheimtan sé svo leiðrétt eftir álestur, eins og gert er við greiðslu fyrir hita og rafmagn.