Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Krabbameinsvaldandi efni í krabbakjöti

12.10.2020 - 05:52
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Norskir krabbaveiðimenn eru uggandi þrátt fyrir að miðin séu gjöful. Rannsóknir sýna að hættulegt magn málma sé að finna í stórum hluta krabbanna.

Í norska ríkisútvarpinu, NRK, er vísað til rannsóknar sem sýnir að í um sjö af hverjum tíu kröbbum sé það mikið magn af kadmíni í kjötinu undir skelinni að það geti verið hættulegt að neyta þess. Því stærri sem krabbarnir eru, því meira kadmín er í kjötinu. Hvíta kjötið, sem finna má í klóm krabbanna, er hins vegar hættulaust. 

Rannsóknin var gerð á tugum krabba sem veiddust við Þrændalög í Noregi. Í stórum hluta fannst hættulegt magn kadmíns, í sumum allt að 200-falt það magn sem talið er óhætt samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins. Kadmín safnast upp í líkamanum. Það getur verið krabbameinsvaldandi og valdið nýrnaskemmdum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV