Ósköp venjulegur maður
Fyrsti þáttur af þremur var sýndur í gærkvöldi í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi og það er óhætt að fullyrða að hann hafi vakið mikla athygli. Moldvarpan er Ulrich Larsen, öryrki sem áður starfaði sem kokkur. Hann er á fimmtugsaldri, giftur og tveggja barna faðir. Býr í útjaðri Kaupmannahafnar. En hvað fær öryrkja og fyrrverandi kokk til að fara huldu höfði, lifa tvöföldu lífi í 10 ár, með falda myndavél innanklæða og sitja ótal fundi með innsta kjarna áhrifamanna í Norður-Kóreu. „Ég veit það sko ekki. Ég hef alla tíð verið ósköp venjulegur maður,“ segir Ulrich í viðtali við Danska ríkisútvarpið.
Gekk í vináttusamtök Norður-Kóreu
Ulrich varð að hætta sem kokkur eftir að í ljós kom að hann þjáist af alvarlegum ólæknandi sjúkdómi í briskirtlinum. Framtíðin var ekkert sérstaklega björt og hann hafði lítið fyrir stafni. Heimildarþættirnir Rauða kapellan sem blaðamaðurinn Mads Brügger gerði um Norður-Kóreu og sýndir voru í Danska ríkissjónvarpinu 2006 vöktu athygli hans. Hann skráði sig í vináttusamtök Norður-Kóreu, DFK, sem starfa í Danmörku. Hann spurði sig hvað fengi Dani til að styðja og dásama Norður-Kóreu þar sem mannréttindi eru fótum troðin.
Varð fljótelga lykilmaður
Hann hafði líka samband við Mads Brügger. Spurði hann hvar hann gæti nálgast þáttinn og honum lék líka forvitni á að vita hvernig það hefði verið að vera túristi í Norður-Kóreu. Mads svaraði um hæl og Ulrich spurði hvort hann hefði áhuga á að kynnast því sem fram færi á fundum vináttusamtakanna. Ulrich byrjaði að kvikmynda á fundum og sagði félögum sínum í samtökunum að tilgangurinn væri að gera kynningarmyndband um samtökin.
Samstarf Mads og Ulrichs hófst og varð upphafið að tvöföldu lífi Ulrichs árum saman. Mads var tilbúinn að standa undir kostnaði við ferð Ulrichs til Norður-Kóreu. Hann vann traust dönsku félaga sinna í vináttusamtökunum og hann vann líka traust fulltrúa stjórnvalda í Norður-Kóreu. Hann varð fljótlega lykilmaður samtakanna. Sat fjölmarga fundi víða um heim sem fulltrúi KFA þar sem hann hitti fulltrúa stjórnvalda í Norður-Kóreu. Þar var hann yfirleitt með falda myndavél innan klæða.
Viðskipti í boði
Hann kynntist fljótlega Spánverjanum Alejandro Cao De Benós forseta og stofnanda vinnáttusamtakanna Korean Friendship Organization. Hann segir að samtökin séu með fulltrúa í 34 löndum. Ulrich komst fljótlega að því að Spánverjinn var í nánum tenglsum við stjórnvöld í Norður-Kóreu og starfar í raun sem fulltrúi þeirra víða um heim. Ulrich hitti Alejandro í fyrstu ferð sinni til Norður-Kóreu. Hann kom þá fram þar í einkennisbúningi norðurkóreska hersins.
Samskipti þeirra urðu með árunum nokkuð náin og Urlich sat fjölda funda með forseta samtakanna á Spáni. Þessi kynni leiddu til þess að Aljeandro sendi Ulrich Larsen tölvupóst þar sem hann spurði hvort hann hefði áhuga á fjárfestingarverkefnum. Hann væri með í huga þrjú verkefni. Hann sagði að þeir gætu gert eitthvað ef Larsen gæti útvegað fjárfesti sem gæti lagt fram yfir 50 þúsund evrur.