Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Kokkur afhjúpar viðskiptahætti Norður-Kóreu

12.10.2020 - 17:00
Mynd: PIRAYA FILM/WINGMAN MEDIA / PIRAYA FILM/WINGMAN MEDIA
Í dönskum heimildarþætti, Moldvörpunni, sem sýndur var í gærkvöldi samtímis í fjórum löndum, kemur fram að ráðamenn í Norður-Kóreu eru tilbúnir að fara á svig við viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna með ýmsum ráðum. Meðal annars með vopnasölu og framleiðslu eiturlyfja. Fyrrverandi kokki í Danmörku tókst að vinna trúnað Norður-Kóreumanna og afhjúpa þetta með falda myndavél innan klæða.

Ósköp venjulegur maður

Fyrsti þáttur af þremur var sýndur í gærkvöldi í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi og það er óhætt að fullyrða að hann hafi vakið mikla athygli. Moldvarpan er Ulrich Larsen, öryrki sem áður starfaði sem kokkur. Hann er á fimmtugsaldri, giftur og tveggja barna faðir. Býr í útjaðri Kaupmannahafnar. En hvað fær öryrkja og fyrrverandi kokk til að fara huldu höfði, lifa tvöföldu lífi í 10 ár, með falda myndavél innanklæða og sitja ótal fundi með innsta kjarna áhrifamanna í Norður-Kóreu. „Ég veit það sko ekki. Ég hef alla tíð verið ósköp venjulegur maður,“ segir Ulrich í viðtali við Danska ríkisútvarpið. 

Gekk í vináttusamtök Norður-Kóreu

Ulrich varð að hætta sem kokkur eftir að í ljós kom að hann þjáist af alvarlegum ólæknandi sjúkdómi í briskirtlinum. Framtíðin var ekkert sérstaklega björt og hann hafði lítið fyrir stafni. Heimildarþættirnir Rauða kapellan sem blaðamaðurinn Mads Brügger gerði um Norður-Kóreu og sýndir voru í Danska ríkissjónvarpinu 2006 vöktu athygli hans. Hann skráði sig í vináttusamtök Norður-Kóreu, DFK, sem starfa í Danmörku. Hann spurði sig hvað fengi Dani til að styðja og dásama Norður-Kóreu þar sem mannréttindi eru fótum troðin. 

Varð fljótelga lykilmaður

Hann hafði líka samband við Mads Brügger. Spurði hann hvar hann gæti nálgast þáttinn og honum lék líka forvitni á að vita hvernig það hefði verið að vera túristi í Norður-Kóreu. Mads svaraði um hæl og Ulrich spurði hvort hann hefði áhuga á að kynnast því sem fram færi á fundum vináttusamtakanna. Ulrich byrjaði að kvikmynda á fundum og sagði félögum sínum í samtökunum að tilgangurinn væri að gera kynningarmyndband um samtökin.

Samstarf Mads og Ulrichs hófst og varð upphafið að tvöföldu lífi Ulrichs árum saman. Mads var tilbúinn að standa undir kostnaði við ferð Ulrichs til Norður-Kóreu. Hann vann traust dönsku félaga sinna í vináttusamtökunum og hann vann líka traust fulltrúa stjórnvalda í Norður-Kóreu. Hann varð fljótlega lykilmaður samtakanna. Sat fjölmarga fundi víða um heim sem fulltrúi KFA þar sem hann hitti fulltrúa stjórnvalda í Norður-Kóreu. Þar var hann yfirleitt með falda myndavél innan klæða.

Viðskipti í boði

Hann kynntist fljótlega Spánverjanum Alejandro Cao De Benós forseta og stofnanda vinnáttusamtakanna Korean Friendship Organization. Hann segir að samtökin séu með fulltrúa í 34 löndum. Ulrich komst fljótlega að því að Spánverjinn var í nánum tenglsum við stjórnvöld í Norður-Kóreu og starfar í raun sem fulltrúi þeirra víða um heim. Ulrich hitti Alejandro í fyrstu ferð sinni til Norður-Kóreu. Hann kom þá fram þar í einkennisbúningi norðurkóreska hersins.

Samskipti þeirra urðu með árunum nokkuð náin og Urlich sat fjölda funda með forseta samtakanna á Spáni. Þessi kynni leiddu til þess að Aljeandro sendi Ulrich Larsen tölvupóst þar sem hann spurði hvort hann hefði áhuga á  fjárfestingarverkefnum. Hann væri með í huga þrjú verkefni. Hann sagði að þeir gætu gert eitthvað ef Larsen gæti útvegað fjárfesti sem gæti lagt fram yfir 50 þúsund evrur.

Mynd með færslu
 Mynd: PIRAYA FILM/WINGMAN MEDIA
Fundað með Mr. James

Mr. James búinn til

Ulrich hafði samband við Mads Brügger. Niðurstaðan var að ráða mann til að leika hlutverk Mr. James sem átti að líta út sem fjárfestir sem væri til í viðskipti jafnvel þó að þau væru ekki innan ramma laganna. Hið rétta nafn þess sem var fenginn í hlutverkið er Jim Latrache-Qvortrup. Fyrri reynsla hans kom að góðum notum. Hann átti að baki afbrotaferil í tengslum við sölu fíkniefna. Var dæmdur í þrettán og hálfs árs fangelsi og afplánaði átta af þeim. Hann  mætti á fundi með fulltrúum Norður-Kóreu þar sem hann gaf til kynna að hann væri tilbúinn að fjárfesta. Hann starfaði með Larsen frá 2016 til 2019.

Í fyrsta þættinum var meðal annars sýnt frá fundi Mr James, Ulrichs Larsens og Spánverjans Alejandros. Þar viðraði Spánverjinn kaup á eiturlyfjum og vopnum. Hann gæti séð til þess að Mr. James hitti rétta fólkið í Norður-Kóreu til að hefja viðskipti.

Vopn og eiturlyf

2017 fóru Larsen og James til Norður-Kóreu þar sem þeir sátu fund með áhrifamönnum yfirvalda. Fundinum lauk með því að skrifað var undir samning um að vinna að viðskiptum um kaup á vopnum og lyfjum eins og svo sem metamfetamíni og rítalíni.

Næstu ár var fundað víða um heim og rætt um viðskipti sem klárlega brytu gegn viðskiptabanni eða bönnum sem sett hafa verið á Norður-Kóreu. Á fundunum var meðal annars rætt um neðanjarðar vopnaverksmiðju og eiturlyfjaframleiðslu sem yrði staðsett í Úganda. Mr. James fékk áætlun um þessi áform afhent í sendiráði Norður-Kóreu í Stokkhólmi. Í þáttunum kemur skýrt fram að Norður-Kóreumenn eru tilbúnir að taka mikla áhættu til að afla fjármagns sem skortur er á í landinu. James er líka beðinn um að vera milligöngumaður í vopnasölu til Sýrlands. Greiðslan átti að vera í formi olíu sem flutt yrði til Norður-Kóreu.  

Næsti þáttur um Moldvörpuna verður sýndur í kvöld í Danska ríkisútvarpinu og vonir standa til að bráðlega verði þættirnir sýndir á RÚV.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV