Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Klúður og samskiptaleysi á skíðasvæðinu Ischgl

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson - RUV
Yfirvöld á austurríska skíðasvæðinu Ischgl hefðu átt að loka skíðasvæðinu fyrr eftir að þeim varð ljóst að kórónuveiran hafði náð þar útbreiðslu. Þá var illa staðið að þeirri ákvörðun austurríska stjórnvalda þegar svæðið var sett í sóttkví. Hún kom flatt upp á flesta og leiddi til þess að örvænting greip um sig meðal erlendra ferðamanna sem flúðu heim, grunlausir um að þeir hefðu mögulega verið útsettir fyrir smiti

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar sem kynnt var í dag. 

Undir mikilli tímapressu við fordæmalausar aðstæður

Beðið hefur verið eftir skýrslunni enda er talið að skíðasvæðið Ischgl hafi verið einn af upphafspunktum fyrstu bylgju kórónuveirunnar sem gekk yfir Evrópu í vetur.  

Í skýrslunni eru fjölmörg viðtöl auk þess sem rannsóknarnefndin hafði aðgang að 5.768 síðum af gögnum.  Ronald Roehrer, dómari og formaður nefndarinnar, sagði á blaðamannafundi í dag að aðstæðurnar hefðu verið fordæmalausar og ráðamenn undir mikilli tímapressu.

Roehrer sagði á blaðamannafundinum að það hefðu verið mistök að loka ekki skíðasvæðinu í Ishcgl fyrr. Ráðamenn hefðu brugðist rétt við með umfangsmiklum skimunum og smitrakningu eftir að fréttir bárust af smiti hjá hópi Íslendinga. Sú vinna hefði átt að leiða til lokunar skemmtistaðarins Kitzloch, þar sem smitrakning hafði leitt í ljós að Íslendingarnir höfðu verið þar.

Og í stað þess að loka skíðasvæðinu 12. mars hefði því átt að vera búið að skella í lás að minnsta kosti þremur dögum fyrr. 

Gagnrýnir yfirlýsingar um að Íslendingar hafi smitast í flugvél

Roehrer sagði ekkert benda til þess að ferðaþjónustufyrirtæki hefðu haft óeðlileg afskipti eða áhrif á ráðamenn þegar þessar ákvarðanir voru teknar heldur hefðu einfaldlega verið stuðst við úrelda farsóttaáætlun frá 1950.  

Þá gagnrýndi hann yfirlýsingar ráðamanna í Ischgl þar sem gefið var í skyn að Íslendingarnir, sem greindust með kórónuveirusmit við heimkomuna, hefðu smitast í flugvélinni á leiðinni heim..  „Þetta var ekki rétt og var slæmt,“ sagði dómarinn. 

Einhliða ákvörðun stjórnvalda í Vín

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, og stjórnvöld í Vínarborg eru sömuleiðis gagnrýnd fyrir þá ákvörðun að setja skíðasvæðið í sóttkví. Þetta hafi verið gert án nokkurs samráðs við yfirvöld þar. Ekki hafi gefist ráðrúm til að skipuleggja hvernig erlendir ferðamenn gátu komist heim.

Örvænting hafi því gripið um sig meðal þeirra og er því lýst í skýrslunni að þeir hafi margir hverjir farið á skíðaskónum uppá hótelherbergi, tekið saman föggur sínar og yfirgefið svæðið án nokkurs eftirlits. Þetta er talið hafa orðið til þess að farsóttin dreifðist nánast stjórnlaust til nærri 40 Evrópulanda .

„Stjórnvöld brugðust“

Peter Kolba, sem stendur að hópmálsókn gegn austurrískum yfirvöldum, segir skýrsluna varpa ljósi á alvarlegan misbrest í viðbrögðum yfirvalda við faraldrinum.  Hann telur skýrsluna sanna að yfirvöld í Ischgl hafi reynt að leyna smitum íslensku ferðamannanna til að vernda svæðið. Þá hafi ríkt algjör óreiða þegar það var sett í sóttkví af austurrískum yfirvöldum. „Frá okkar bæjardyrum er ljóst að austurrísk stjórnvöld og og ráðamenn í Tíról brugðust algjörlega. Skýrslan tekur ekki á því.“