Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Herra Hnetusmjör – Erfingi krúnunnar

Mynd: KBE / Herra Hnetusmjör

Herra Hnetusmjör – Erfingi krúnunnar

12.10.2020 - 16:00

Höfundar

í síðasta mánuði sendi Árni Páll Árna­son, betur þekktur sem Herra Hnetusjmör, frá sér fimmtu plötu sína sem heitir Erfingi krúnunnar hjá útgáfufyrirtæki sínu KBE. Platan er annar hluti þríleiks og sjálfstætt framhald af plötunni Hetjan í hverfinu sem kom út fyrir tveimur árum og þótti vel heppnuð.

Herra Hnetusmjör sendi frá sér plötuna Erfingi krúnunnar í september en platan hefur verið í vinnslu síðastliðin tvö ár. Platan er að mestu leyti unnin með upptökustjóranum Þormóði Eiríkssyni ásamt Ásgeiri Orra og Ásgeiri Kristjáni auk þess sem Huginn og Friðrik Dór koma við sögu. Á plötunni má meðal annars finna risasmellina Vitleysan, Eins og Stjörnurnar.

Herra Hnetusmjörs segist hafa sótt innblástur inn á við „Ég sótti mikinn innblástur í seinustu plötu og horfi á Erfingi krúnunnar sem hluta tvö í þríleik. Eins og önnur verkefni sem ég set frá mér er platan eins konar dagbók fyrir tímabilið sem ég lifi meðan platan er gerð.“  Hann bætir við, „mér finnst ég vera orðinn hokinn af reynslu í leiknum þrátt fyrir ungan aldur og tala frá toppnum. Ég snerti einnig aðeins á fjölskyldumálum en aðallega hvernig það er að vera ung poppstjarna á Íslandi í dag. Ég er lítið fyrir það að kveinka mér þannig platan er stemmning i gegn, samt sem áður fjölbreytt í stílum og ætti hver einasta útvarpsstöð að geta spilað að minnsta kosti eitt lag af plötunni.“

Erfingi krúnunnar er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í heild sinni eftir tíufréttir í kvöld ásamt kynningum frá Herra Hnetusmjöri og er auk þess aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
Herra Hnetusmjör – Erfingi krúnunnar.