Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Harma uppsagnir og segja lítið gert úr starfi landvarða

12.10.2020 - 22:43
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Stjórn Landvarðafélags Íslands harmar ákvörðun Þjóðgarðsins á Þingvöllum að segja upp öllum starfandi landvörðum hjá þjóðgarðinum. Stjórnendur eru hvattir til að endurskoða uppsagnirnar svo hægt sé að tryggja umhirðu og vernd svæðisins.

Eins og fréttastofa greindi frá í dag hefur átta landvörðum og einum verkefnisstjóra hjá Þjóðgarðinum verið sagt upp. Einar Ásgeir Sæmundssen, þjóðgarðsvörður, sagði algjört tekjufall hafa orðið í sértekjum þjóðgarðsins í faraldrinum og að núverandi fjárveiting dugi skammt. Það sé ekki hræða á Þingvöllum og því þurfi að grípa til uppsagna.

Í yfirlýsingu frá Landvarðafélagi Íslands sem birtist á Facebook í kvöld segir að þrátt fyrir að gestum hafi fækkað og að það stefni í rólegan vetur, sé nauðsynlegt að sinna landvörslu á meðan hann er enn opinn öllum, allan sólarhringinn og alla daga ársins. Það geri lítið úr störfum landvarða að ætlast til þess að aðrir starfsmenn sinni störfum þeirra, samhliða sínum eigin.

Landvarðafélagið bendir einnig á að Þjóðgarðurinn hafi fengið fjármagn til framkvæmda við byggingu innviða síðustu ár. Það sé umhugsunarvert að ekki séu tryggðir nægir fjármunir í fjárlögum til að sinna umhirðu og nauðsynlegri verndun svæðisins. 

„Stjórn Landvarðafélags Íslands sýnir því einungis rökum uppsagnanna ákveðin skilning en getur ekki annað en gagnrýnt áherslur stjórnenda og rekstrarfyrirkomulag þjóðgarðsins. Stjórnin hvetur því stjórnendur Þjóðgarðsins á Þingvöllum til að endurskoða uppsagnirnar þannig að hægt verði að tryggja þjóðgarðinum stöðugildi landvarða sem sinna landvörslu,“ segir í yfirlýsingunni. 

Þá er umhverfis- og auðlindaráðherra, Þingvallanefnd og alþingismenn hvattir til að endurskoða rekstrarfyrirkomulag þjóðgarðsins þannig að umhirða og verndun hans verði tryggð.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV