Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Græna veiran“ ekki greinst síðan 6. október

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hin svokallaða „græna veira“ sem er talin hafa verið ábyrg fyrir annarri bylgju kórónuveirufaraldursins hér á landi hefur ekki greinst síðan 6. október. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra. Aðeins einn veirustofn hefur því fundist í tæpa viku en hann gengur undir nafninu „bláa veiran“.

„Græna veiran“ olli nokkrum usla en hún greindist fyrst 25. júlí á höfuðborgarsvæðinu. 

Fingraför hennar fundust ekki í alþjóðlegum gagnabanka og það benti til þess að hún væri frá landi sem væri lítið í að raðgreina veiruna. Helst lék grunur á að hana mætti rekja til lands í Austur-Evrópu. 

Hún varð þess meðal annars valdandi að allir ráðherrar nema tveir þurftu að fara í tvöfalda skimun eftir að upp kom hópsýking á Hótel Rangá. Ríkisstjórnin hafði setið þar að snæðingi eftir ríkisstjórnarfund. Þá kom einnig upp hópsýking á Akranesi.

Þriðja bylgjan sem nú er í gangi er því alfarið borin upp af „bláu veirunni“ sem greindist fyrst í tveimur frönskum ferðamönnum um miðjan ágúst.  Um tíma var talið að þeir hefðu brotið sóttvarnalög. Samkvæmt svörum frá embætti ríkislögreglustjóra þá fylgdu þeir ekki sóttvarnaráðstöfunum til hins ýtrasta en brot þeirra þóttu ekki það alvarleg að ástæða þótti til að sekta þá.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í dag að það myndi skýrast í lok þessarar viku hvaða árangri hertar sóttvarnaaðgerðir hefðu skilað. 50 innanlandssmit greindust í gær og voru rúmlega 60 prósent þeirra í sóttkví. 

Alls eru nú 24 inniliggjandi á Landspítalanum með COVID-19, þrír þeirra eru á gjörgæsludeild og tveir af þeim í öndunarvél. 1.039 eru í eftirliti hjá COVID-göngudeild Landspítalans og hafa ekki verið fleiri síðan í byrjun apríl.