Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fauci ósáttur við auglýsingu Repúblikana

epa08392045 Dr. Anthony Fauci makes remarks as US President Donald J. Trump and Louisiana Governor John Bel Edwards looks on in the Oval Office, Washington, DC, USA, 29 April 2020.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA
Anthony Fauci, yfirmaður ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, er ósáttur við sjónvarpsauglýsingu Repúblikanaflokksins þar sem hann segir orð sín tekin úr samhengi. Hann sendi frá sér yfirlýsingu eftir að hafa séð auglýsinguna, þar sem hann segist aldrei hafa veitt frambjóðanda opinberlega stuðning fyrir kosningar í þau tæpu fimmtíu ár sem hann hefur unnið hjá hinu opinbera. 

Í auglýsingunni lítur út fyrir að Fauci sé að mæra aðgerðir Bandaríkjastjórnar vegna kórónuveirufaraldursins. Þar er meðal annars vitnað í veikindi Donald Trump forseta, og hann sagður hafa sigrast á COVID-19, líkt og þjóðin sé að gera. Undir lokin er svo stuttur bútur af viðtali við Fauci á Fox fréttastöðinni í mars þar sem hann segir að hann geti ekki ímyndað sér að nokkur gæti gert meira.

Ummælin eru klippt saman úr lengri ummælum Fauci. Þar segist hann hafa varið nánast öllum vinnudeginum í marga daga í að sinna kórónuveirufaraldrinum. Hann hafi verið í Hvíta húsinu á hverjum degi ásamt aðgerðarteyminu sem sett var saman vegna faraldursins. Hann gæti því ekki ímyndað sér miðað við aðstæður að nokkur gæti verið að gera meira.
Fauci er verulega ósáttur við að samhengislaus ummælin séu notuð án hans leyfis í auglýsingu Repúblikana. Þau séu tekin úr víðara samhengi um störf starfsmanna heilbrigðisyfirvalda, hefur AFP fréttastofan eftir yfirlýsingu hans. 

Á ýmsu hefur gengið á milli Fauci og Hvíta hússins í kórónuveirufaraldrinum. Trump endurbirti í apríl færslu á Twitter þar sem kallað var eftir brottrekstri Fauci með myllumerkinu #FireFauci. Opinberlega lýsti Trump þó síðar að Fauci væri að skila góðu starfi.