Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fagnar sanngirnisbótum en segir uppgjöri ekki lokið

12.10.2020 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Formaður Þroskahjálpar fagnar sanngirnsbótum sem greiða á fötluðum einstaklingum sem voru vistaðir illan kost sem börn á vegum ríkisins, en segir að enn eigi eftir að bæta þeim sem vistaðir voru sem fullorðnir skaðann. Þá þurfi að skoða mál þeirra sem barnaverndaryfirvöld vistuðu á einkaheimilum.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum á föstudag að leggja fram frumvarp um sanngirnisbætur til barna með fötlun sem dvöldust á litlum vistheimilum á vegum hins opinbera síðustu áratugi og urðu fyrir misrétti. Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Þroskahjálpar fagnar þessu.

„Við fögnum því auðvitað að það standi til að leggja fram þetta frumvarp og klára málefni varðandi fötluðu börnin eins og lagt er til í skýrslu um Kópavogshælið. En við megum samt ekki gleyma því að þar koma líka fram ábendingar um að það þurfi að gera upp fortíðina varðandi fullorðið fólk sem var vistað við sambærilegar aðstæður, það er að segja óviðunandi aðstæður.“

Bryndís segir þetta því ekki endanlegt uppgjör við fortíðina.

„Í sjálfu sér ekki. Það má kannski líta svo á að þetta sé endapunkturinn gagnvart fötluðu börnunum, en þetta er ekki endapunkturinn gagnvart fullorðnu fólki sem sætti illri meðferð á stofnunum ríkisins. Það mál hefur bara ekki verið skoðað af stjórnvöldum en þarf nauðsynlega að gera.“

Bryndís segir að ýtt verði á eftir því að farið verði í þetta uppgjör.

„Það eru margir einstaklingar sem hafa verið í sambandi við okkur sem að bara hafa liðið vítiskvalir allt sitt líf vegna þeirrar meðferðar sem þeir sættu á yngri árum á stofnunum ríkisins.“

Við þetta bætist síðan, segir Bryndís, að skoða verði mál barna sem barnaverndaryfirvöld vistuðu á sínum tíma, ekki á stofnunum heldur einkaheimilum. Sagt hafi verið að slíkt sé ógjörningur en Bryndís trúir að það sé hægt.