Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Ekki mögulegt að leggja auknar álögur á íbúa“

12.10.2020 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, leggst gegn því að nýtt umhverfisgjald verði lagt á bíla. Hún segir bifreiðaeigendur nú þegar greiða mjög ríflega fyrir að eiga bíl.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Ólafur Þór Gunnarsson, þingmenn Vinstri grænna, lögðu fram tillögu á Alþingi í síðustu viku um að fela ráðherrum að skoða hvort veita eigi sveitarfélögum heimild til að innheimta umhverfisgjöld af íbúum, meðan annars fyrir að eiga bíl. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir það ómögulegt.

„Sveitarfélögin eru vanfjármögnuð með þeim tekjustofnum sem þau hafa í dag þannig að allir möguleikar á nýjum tekjustofnum er eitthvað sem okkur líst vel á. Á sama tíma teljum við ekki mögulegt að leggja auknar álögur á íbúa. Það er mín persónulega skoðun að bifreiðaeigendur séu í dag að borga mjög ríflega fyrir það að fá að eiga bíl,“ segir Aldís.

Hún segir jákvætt að fleiri sem vinna á höfuðborgarsvæðinu hafi á síðustu árum flutt á svæði á jaðri þess. „Á sama tíma má náttúrulega ekki vera að letja til þess með því að gera ferðirnar miklu miklu dýrari en þær þyrftu að vera.“

Aldís segir að sveitarfélögin tækju því fagnandi ef tekjur af bifreiðagjöldum færðust að hluta til þeirra. Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir slíkar tilfærslur hugsanlegar en gagnrýnir tillöguna annars harðlega.

„Ríkið er að innheimta áttatíu milljarða af bílum og umferð á hverju ári. Ég sé ekki að það sé svigrúm, hvað þá í núverandi ástandi, til að bæta enn á fjölskyldurnar í landinu,“ segir Runólfur.