Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afneitun helfararinnar bönnuð á Facebook

12.10.2020 - 17:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Orðræða þar sem helför gyðinga er afneitað eða hún skrumskæld verður bönnuð á Facebook. Þetta skrifar Mark Zuckerberg, forstjóri netrisans, í færslu í dag. Þetta er að sögn forstjórans liður í að hrekja allt hatur af Facebook.

Facebook hefur lengi verið legið á hálsi fyrir að gera ekki nægilega mikið til þess að hrekja yfirlýsingar þeirra sem telja helförina aldrei hafa orðið og annarra haturshópa. Með þeim breytingum sem gerðar verða á Facebook verður þeim sem slá inn leitarorð sem tengjast helförinni vísað á trúverðugar upplýsingar, samkvæmt yfirlýsingu fyrirtækisins.

„Við höfum lengi eytt færslum um hatursglæpi og fjöldamorð, þar á meðal helförina,“ skrifar Zuckerberg í færslu sinni í dag en segir að vegna aukins gyðingahaturs þá verður sú stefna hert og öllum færslum þar sem helförin er ýmist ekki sögð hafa skeð eða frásögnin afbökuð verða bannaðar.

„Vandasamt“ að draga línuna

Zukerberg segist hafa glímt við mismunandi sjónarmið um tjáningarfrelsi annars vegar og þegar dregið er úr helför gyðinga. „Þankagangur minn hefur breyst eftir að ég sá gögn um að aukið ofbeldi vegna gyðingahaturs,“ skrifar hann.

Mynd með færslu
Færsla Zuckerbergs á Facebook.

„Það er vandasamt að draga réttar línur um hvað er ásættanlegt og hvað er það ekki. Miðað við stöðu heimsmálanna í dag þá tel ég þetta vera rétt skref,“ skrifar Zuckerberg.

Haft er eftir Moniku Bickert, yfirmanni efnisstefnu Facebook, í tilkynningu að þessar breytingar gerist ekki á einni nóttu. Hatursorðræðuna þarf að greina til þess hægt sé að þjálfa starfsfólk og gervigreind til að bregðast við.

Á öðrum ársfjórðungi þessa árs bannaði Facebook meira en 250 hópa sem telja hvíta kynstofninn æðri öðrum og eyddi um 22,5 milljónum færsla sem dæmdar voru sem hatursorðræða.

Brugðist við gagnrýni

Facebook og aðrir samfélagsmiðla- og netrisar hafa á síðustu misserum gert breytingar á stefnu sinni til þess að koma í veg fyrir falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Þessar breytingar eru oftar en ekki gerðar og settar í samhengi við kosningar í Bandaríkjunum, ekki síst forsetakosningar.

Eftir forsetakosningarnar árið 2016, þegar Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna, voru forsvarsmenn stærstu netfyrirtækja vestanhafs kallaðir á fund þingnefnda Bandaríkjaþings til þess að ræða þátt þeirra í dreifingu upplýsinga í aðdraganda kosninganna. Þá voru afskipti Rússa í hámæli og þáttur samfélagsmiðla þegar kom að dreifingu rangra upplýsinga.

Á síðastliðnum fjórum árum hafa netrisarnir gert ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að dreifa falsfréttum í eins miklum mæli. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja hafa þó verið gagnrýndir fyrir að gera ekki nóg. Löggjafinn, bandaríska þingið, hefur einnig verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki brugðist við og sett skýrt regluverk utan um starfsemi netfyrirtækja.