Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja flytja minnst 100 sjúklinga af LSH í Urðarhvarf

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Heilbrigðisráðuneytið ætlar að hraða eins og kostur er afgreiðslu erindis fyrirtækisins Heilsuverndar, um að taka við að minnsta kosti 100 sjúklingum frá Landspítalanum í stórri byggingu við Urðarhvarf í Kópavogi. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem erindið kemur inn á borð ráðuneytisins. Stjórnendur á Landspítalanum eru hvatamenn að því að hugmyndin er nú til skoðunar að nýju. Forstjóri Landspítalans fagnar hugmyndinni og segir að þetta myndi minnka álagið á spítalanum.

Mikið álag hefur verið á Landspítalanum að undanförnu, og ekki útlit fyrir að það álag minnki á næstunni. Eitt af vandamálunum sem spítalinn glímir við er það sem kallað hefur verið fráflæðisvandi. Það þýðir að spítalinn getur ekki útskrifað sjúklinga, sem hafa náð töluverðum bata, en eru ekki nógu hraustir til þess að fara heim. Þessir sjúklingar eru oft í eldri kantinum og nota rými sem þyrfti að nota fyrir aðra sjúklinga.

Fyrirtækið Heilsuvernd hefur verið með hugmyndir um að taka við þessum sjúklingum í stórri byggingu við Urðarhvarf í Kópavogi, en þar er nú þegar ýmiss konar heilbrigðisstarfsemi, meðal annars sjúkraþjálfun, bæklunarlæknaþjónusta, skurðstofur og röntgenþjónusta. Fyrr á þessu ári sendi fyrirtækið erindi þess efnis til Heilbrigðisráðuneytisins, en hugmyndinni var þá hafnað.

En nú er búið að dusta rykið af hugmyndinni því í lok september barst ráðuneytinu formleg umsókn Heilsuverndar til Sjúkratrygginga Íslands þar sem boðin er aðstaða til þess að taka við að minnsta kosti 100 sjúklingum í hjúkrunar- og endurhæfingarrýmum. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru það millistjórnendur á Landspítalanum sem hvöttu Heilsuvernd til þess að senda erindið inn að nýju.

„Við höfum árum saman kallað eftir og ítrekað mikilvægi þess að byggja nóg og fjölga hjúkrunarplássum. Þannig að við fögnum öllum tillögum sem hjálpa okkur í þá átt, og þar á meðal þessari,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Reyna að létta álagi

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir meðal annars að erindi Heilsuverndar krefjist „vandaðrar umfjöllunar SÍ og heilbrigðisráðuneytisins áður en unnt er að taka afstöðu til þess.“

Meðal annars þurfi að skoða erindið með hliðsjón af gildandi framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila og stöðu samninga sem þegar hafa verið gerðir eða eru í undirbúningi. Þá þurfi að skoða hvort verkefnið feli í sér útboðsskyldu, auk þess sem skoða þurfi mögulega fjármögnun verkefnisins. Þá þurfi að skoða hvort og hvernig húsnæðið sem boðið er fram muni, eða geti uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til aðbúnaðar aldraða á hjúkrunarheimilum.

Þá segir í svari ráðuneytisins:

„Ráðuneytið vinnur markvisst að því að létta álagi af Landspítala sem er mikið vegna COVID-19 og leitar allra leiða til að finna úrræði fyrir aldraða sjúklinga sem þar liggja en hafa lokið meðferð. Umfjöllun SÍ og ráðuneytisins um erindi Heilsuverndar verður hraðað eins og kostur er.“

Hefur ekki rætt við ráðherra

Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar, segir að hugmyndin sé sú að fyrirtækið leigi 6.000 fermetra í byggingunni við Urðarhvarf, undir starfsemina. Hann segir að ef grænt ljós fæst fljótlega, væri líklega hægt að hefja starfsemina í síðasta lagi í mars.

Aðspurður segir Páll að verði þessi hugmynd að veruleika myndi það létta mjög á álaginu á Landspítalanum. Ástæðulaust sé að hræðast einkavæðingu í þessum málaflokki.

„Það er ekkert nýtt og Landspítalinn hefur einmitt hvatt til þess að litið sé til þess að virkja félagasamtök og einmitt einkaframtakið í því að veita hjúkrunarheimilispláss og að byggja hjúkrunarheimilin. Vegna þess að þar eru blandaðar lausnir og þær hafa allar gefist vel.“

Páll þorir ekki að spá fyrir um hvort málið hljóti stuðning stjórnvalda.

„Ég hef ekki rætt þetta við heilbrigðisráðherra þannig að ég þekki það ekki en ég veit að heilbrigðisráðherra er mjög áfram um að finna lausnir og að efla hjúkrunarþjónustu við aldraða,“ segir Páll.