Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Smitrakning gengur betur en áður 

11.10.2020 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Smitrakning gengur nú mun betur en hún gerði í upphafi þriðju bylgjunnar, enda hefur hlutfall þeirra sem eru í sóttkví þegar þeir greinast með COVID-19 hækkað á allra síðustu dögum. Um mánaðamótin síðustu var hlutfallið gjarnan milli 25 og 35 prósent en í dag var það 60 prósent og í gær 65.

Geta betur nýtt upplýsingatækni

„Það hefur gengið betur núna. Það var gríðarlegt álag í upphafi þriðju bylgjunnar. Smitrakningarteymið hefur náð í endann á sér ef svo má segja,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við fréttastofu.  

Hann segir að það gangi betur og betur að nýta upplýsingatækni til að bæta boðleiðir. Nú fái fólk upplýsingar með sms-i, tölvupósti og á heilsuveru, þurfi það að fara í sóttkví. Svo sé hringt í alla; rakningarteymið hringi í þá sem þurfa að fara í sóttkví og COVID-göngudeild Landspítalans í þá sem þurfa að fara í einangrun.  

Á áttunda tug í rakningarteyminu víða um landið 

Jóhann segir að nú starfi á áttunda tug í smitrakningarteyminu. Landspítalinn og lögregluembættin um allt land hafi lagt til mannskap í rakningarteymið strax í upphafi fyrstu bylgju. Fólk starfi nú á sínum starfstöðum víða um landið við smitrakningu.