Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Slást í von um virðingu

11.10.2020 - 19:51
Mynd: Fréttir / Fréttir
Sum ungmenni birta slagsmálamyndbönd af sér í þeim tilgangi að öðlast virðingu, segja stúlkur sem fréttastofan ræddi við. Þær kalla eftir því að skólarnir beiti sér í að stöðva þessa hegðun. Við vörum við myndunum í þessari frétt. 

Lögreglan hefur á undanförnum mánuðum látið fjarlægja sjö aðganga að samfélagsmiðlum þar sem börn og ungmenni hafa deilt myndböndum af sér eða öðrum í slagsmálum og óttast lögreglan að aukið ofbeldi geti leitt til varanlegs skaða, Ungmenni sem fréttastofan hitti segja þetta mjög algengt og vera menningu hjá ákveðnum hópum, einkum þeim sem  ekki virðast vera í neinu tómstundastarfi, íþróttum eða slíku og leiti gjarnan í rangan félagsskap og með því að slást telji þau sig öðlast virðingu. Dæmi séu um að krakkar séu neyddir til að slást,  annað sé niðurlægjandi, en einnig til að láta undan hótunum. Þetta viðgangist í ýmsum aldursflokkum nniður í tólf ára krakka.

Þær Hrafnhildur Una Magnúsdóttir, Agnes Helga Gísladóttir, Karitas Sól Þórisdóttir, Lóa Kolbrá Friðriksdóttir og Ásrún Aldís Hreinsdóttir segja myndböndunum  dreift á samskiptamiðlum eins og Snapchat, en eins séu opinberar síður  með svona efni  auðfundnar og krakkarnir fylgist vel með.  Þær segja mikilvægt að stöðva dreifingu myndbandanna. Þær benda á að áhersla hafi verið lögð á að stöðva dreifingu nektarmynda og það sama ætti að gera með ofbeldismyndbönd. Mikiilvægt sé að jafningi, eða einhver ung manneskja tali við krakkana, þeir hlusti þá frekar heldur en ef einhver kall úti  í bæ, eins og þær orðuðu það, tali við þau. Þá væri mikilvægt að einhver sem hefur reynslu af slagsmálum af þessu tagi segi reynslusögu sína.

Þær segja það spurningu um hvenær einhver lendir á sjúkrahúsi eftir svona slagsmál eða jafnvel deyr og hafa heyrt sögur af krökkum sem hafa nefbrotnað og rotast. Þær kalla eftir því að skólarnir taki málið upp.