Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ótrúleg endurkoma eftir röð áfalla

Mynd: RUV / RUV

Ótrúleg endurkoma eftir röð áfalla

11.10.2020 - 19:35
Mist Edvardsdóttir var aðeins nítján ára gömul þegar hún var fyrst kölluð inn í A-landslið Íslands í knattspyrnu árið 2010 en þá var hún að leika sitt fyrsta tímabil fyrir KR eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá Aftureldingu. Núna tíu árum síðar er hún enn að og spilar með einu besta liði landsins, Val. Ferill hennar hefur þó ekki alltaf verið dans á rósum.

Mist var á hraðri uppleið í knattspyrnunni hér á landi en árið 2014 greinist hún með krabbamein í eitlum. Við tóku lyfjagjafir og talsvert lengra bataferli en hún hafði búist við.
„Þetta er í febrúar 2014 sem ég tek fyrst eftir einhverju en ég fæ ekki greininguna fyrr en í júní. Ég man að ég var heima hjá mér að bursta tennurnar og lyfti upp hendinni þá fannst mér bara poppa út kúlur á hálsinum. Ég man að ég fór til mömmu í lok maí og sagði bara annað hvort er ég að verða eitthvað klikkuð eða þá að það er eitthvað að.“

„Maður er svo barnslega einfaldur, ég hugsaði bara ókei þetta er sex mánaða lyfjameðferð og ég dett út í júní og er búin um jólin, ég get verið kominn á Algarve með landsliðinu í mars. Það var alls ekki málið, ég var ekki einu sinni byrjuð að æfa í mars.“

Baráttan við krossbandaslitin
Eftir að hafa sigrast á krabbameininu var annar steinn lagður í götu Mistar því snemma árs 2017, rúmum sjö árum eftir að hún kom inn á í sínu fyrsta landsleik, verður hún fyrir því óláni að slíta fremra krossband. Meiðsli sem erfitt er að ná sér af.

Ári síðar hófst svo önnur erfið endurkoma á ferlinum. Önnur heila fótboltaæfingin eftir krossbandaslitin frá árinu á undan endaði á vægast sagt slæman hátt. Hún sleit krossband eftir að hafa farið of hratt af stað eftir fyrstu krossbandaslitin og var aftur komin á sjúkralistann. Það áttu þó ekki eftir að verða hennar síðustu krossbandaslit.

„Í þriðja skiptið þá var þetta hitt hnéið og þá hugsaði maður bara nei hættu, ekki þetta líka. Það gekk rosalega vel eftir aðgerð númer tvö og var komin á gott ról og gekk rosalega vel. Svo erum við að spila á móti Keflavík síðasta sumar og við minnstu hreyfingu þá gefur hægra hnéið sig. Ég viðurkenni að það var þyngsta höggið, ég viðurkenni að ég held að ég hafi grenjað alla leiðina heim frá Keflavík.“

Segist eiga nóg eftir og ætlar sér að halda áfram
Þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið snéri Mist til baka á fótboltavöllinn í sumar eftir langa fjarveru í fjórða sinn á ferlinum. Hún skoraði þrjú mörk í 7-0 sigri Vals á Fylki og hefur hjálpað liðinu í baráttunni við Breiðablik á toppi deildarinnar. Hún segir að á meðan hún hafi gaman af þessu og líði vel að þá ætlar hún sér að halda áfram í fótbolta.

„Er ekki alltaf talað um mílur á tanknum? Minn tankur hefur verið í geymslu í einhvern tíma. Ég hef lært það síðustu ár að vera ekkert að plana of mikið framhaldið. Á meðan ég hef gaman að þessu og mér líður vel þá langar mig að halda áfram.“