Ömurlegt að sitja undir því að hafa falsað silfrið

Mynd: RÚV / RÚV

Ömurlegt að sitja undir því að hafa falsað silfrið

11.10.2020 - 20:20

Höfundar

„Þetta er hvorki meira né minna en langstærsti silfursjóður sem fundist hefur á Íslandi, það að við vitum." Þetta sagði Kristján Eldjárn í ágúst 1980, í tilefni þess að fundist hafði í Miðhúsum við Egilsstaði, fornminjar

Fundurinn vakti mikla athygli enda var um að ræða stærsta silfursjóð sem fundist hafði hér á landi og var aldur hans rakin til víkingaaldar. Það voru hjónin Hlynur Halldórsson og Edda Björnsdóttir sem fundu sjóðinn þegar var verið að grafa fyrir íbúðahúsi þeirra. Í Landanum rifjuðum við upp fundinn og það þegar upp spruttu miklar deilur vegna sjóðsins, fjórtán árum eftir að hann fanns. 

Ég held að þetta sé silfur

Edda var að undirbúa sunnudagsmatinn þegar sonur hennar kom til hennar með eitthvað sem hann hafði fundið á jörðinni. „Þá kemur Fjölnir til mín með fullar hendur af þessu dóti og segir: við pabbi fundum silfur. Já, elskan settu þær bara á tröppurnar, komst alls ekki fyrir í íbúðinni, hún var svo lítil. „Pabbi er að koma með meira, sagði hann. Í því kemur Hlynur fyrir hornið. Ég horfi á hann og hann segir: „Ég held þetta sé silfur." segir Edda. 

Hjónin höfðu samband við safnstjóra fyrir austan sem kíkti á silfrið og sagði að þau yrðu að tilkynna fundinn. Þau gerðu það en svo vildi til að Kristján Eldjárn fyrrum þjóðminjavörður var rétt hjá þeim við rannsóknir og kom hann samdægurs til þeirra. Kristján var þá nýhættur sem forseti Íslands en hann lét af embætti 1. ágúst sama ár. „Og hann fer inn í þessa litl stofu, stoppar horfir í smá stund og segir: „Þetta megiði ekki eiga. Nei, nei farðu bara með þetta sögðum við. Já, þetta er merkilegt, sagði hann: Þetta er silfurfundur. Við vissum svosem ekkert hvað það þýddi," segir Edda. 

Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, kom með flugi daginn eftir og saman skoðuðu þeir Kristján svæðið þar sem silfrið hafði fundist. Síðan var farið með silfrið til Reykjavíkur og hjónin fengu borguð svokölluð fundarlaun, um 10 þúsund krónur. Fundurinn vakti mikla athygli í fjölmiðlum. Kristján sagði á þeim tíma að erfitt væri að segja til um nákvæman aldur sjóðsins en hægt væri að tímasetja hann á víkingaöld. 

Ýjað að því að silfrið væri falsað 

Það var svo fjórtán árum síðar sem að farið var að fjalla um silfrið á nýjan leik þegar starfsmaður safnsins taldi ekki rétt að silfrið væri svo gamalt. Upp spruttu miklar deilur í fjölmiðlum um aldur silfursins og jafnvel ýjað að því að um falsaða nýsmíð væri að ræða.
„Og við drógumst inn í það. Vorum sökuð um að hafa falsað þetta. En hvernig við áttum að gera það og hvar við áttum að hafa fengið hráefnið, það veit ég ekki og hef aldrei skilið," segir Edda. 

Enskur prófessor hafði komist að þeirri niðurstöðu að hluti sjóðsins gæti ekki verið eins gamall og hann var sagður vera. Hins vegar komust sérfræðingar danska þjóðminjasafnsins að annarri niðurstöðu - að silfrið væri frá víkingaöld fyrir utan einn hlut þar sem handbragð á honum hefði ekki svo vitað væri verið þekkt á þeim tíma.

Ömurlegt að vera sakaður um þetta

Edda segir það hafa verið ömurlegt að dragast inn í þetta mál og sitja undir slíkum ásökunum. „Það er bara er ömurlegt. Það var bara eins og maður væri glæpamaður. Þá forherðist maður. Ég varð svo reið að ég sagðist ekki sitja undir þessu."
Hjónin unnu málið fyrir dómi og var safninu gert að greiða þeim skaðabætur vegna ummæla starfsmanns safnsins. Edda segir þetta hafa verið óskemmtilega reynslu sem hafi sett mark sitt á þau og þennan fund. 

Bót á máli

„Við vorum bara alveg miður okkar. Oft hringdi hérna síminn og það komu hérna blaðamenn. Við vorum alveg uppgefin á þessu. Þetta var alveg ömurlegur tími. Síðan þá hef ég ekki látið frá mér einn hlut sem ég hef fundið í jörðinni og hana nú," segir Edda. 
Hún segir það hafa verið sárabót að þau hafi unnið málið. „Auðvitað er það heilmikil bót, það stóð allt samfélagið hérna með okkur, að minnsta kosti flestir. Það var mikill léttir en þetta er ömurlegt að lenda í þessu, það get ég alveg sagt ykkur."

Hefur sína kenningu um sjóðinn

Edda hefur sína kenningu um hvaðan silfursjóðurinn kann að vera kominn en Eiríkur Sigurðsson setti fyrst fram þá kenningu byggða á fornsögum að austan. Hún snýr að því að Arnheiður frá Arnheiðarstöðum hafi átt silfrið en hún hefði gefið Gró, dóttur sinni það en hún bjó seinna að Eyvindartungu, skammt frá þar sem Miðhús eru í dag. 
„Og hún hefði látið Gró dóttur sína hafa þennan sjóð en syni sína tvo, þeir hefðu fengið goðorð í héraði eða borgarfirði. Mjög lógísk skýring, Gró virðist ekki hafa verið gift. Hún var höfðing hér á Eyvindará. Mér finnst þetta líklegt. Þegar þeir voru fallnir þá hefur hún hugsað eins og ég myndi hugsa í dag: það er enginn afkomandi, það er best að grafa þetta."