Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Niðurgreidd hitaveita gæti minnkað útbreiðslu veirunnar

11.10.2020 - 09:55
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Íslendingar geta notað hitaveituna gegn COVID-19 með því að opna glugga til að bæta loftræstingu og skrúfa frá ofnum til að tryggja að hlýtt sé innandyra.

Þetta segir Björn Birnir, stærðfræðiprófessor við Kalíforníuháskóla, í aðsendri grein á Vísi í dag.

Hann segir að í ljós hafi komið að í lokuðu rými þar sem loftræsting er ekki nægilega góð, geti úði eða agnir sem innihalda kórónuveiruna safnast saman og þést.

Björn segir gufuhitun hafa verið þróaða til að berjast gegn berklasýkingum. Hann segir því gott ráð að setja ofna á fullt, gæta þess að enginn brenni sig á þeim, og opna glugga.

Björn ályktar að þá fjölgun sýkinga sem nú gengur yfir Ísland megi að hluta rekja til þess að fólki haldi sig meira innivið þegar kólnar úti, en gæti ekki að loftræstingu. Því þéttist agnir og úði sem inniheldur veiruna í andrúmsloftinu.

Björn tekur dæmi af nokkrum svæðum Bandaríkjanna, þar sem fólk hefur haldið sig innandyra, ýmist vegna kulda eða hita. Um leið hafi útbreiðsla kórónuveirusmita aukist.

Hann telur það hafa verið vegna þessa að hitun eða loftkæling hafi haft neikvæð áhrif á loftgæðin í húsunum. Björn Birnir bendir því stjórnvöldum á að nú sé kjörið tækifæri til að niðurgreiða hitaveitugjöld í eitt ár.