Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Meira en þúsund í einangrun með sjúkdóminn

11.10.2020 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: ÞórÆgisson - RÚV
Meira en þúsund manns eru nú veikir af COVID-19 á Íslandi. Sextíu greindust innanlands í gær. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir erfitt að segja til um hvort faraldurinn sé í rénun eða hvort um dagbundna sveiflu greindra smita sé að ræða.

Hlutfallslega fleiri jákvæð sýni en í fyrradag

Meirihluti þeirra sem greindust innanlands í gær var í sóttkví, eða 60%. Alls greindust sextíu með veiruna. Hlutfallslega greindust fleiri í gær en í fyrradag, þar sem mun færri sýni voru tekin í gær. Þá voru rétt yfir tvö þúsund sýni greind, en ríflega fjögur þúsund í fyrradag, eða tvisvar sinnum fleiri.

Víðir Reynisson segir óvarlegt að draga of miklar ályktanir um þróun faraldursins út frá þessum tölum. Færri greind smit gætu verið vegna færri greindra sýna, eða vegna áhrifa hertra sóttvarnaraðgerða. „Ætli það sé ekki einhver blanda af því. Það er töluvert færra af sýnum tekin, en við finnum líka að fólk er að taka þátt í aðgerðunum. Það er kannski fullsnemmt að sjá árangur af því núna, en vonandi,“ segir Víðir.

Hann segir að fólk virðist almennt fara eftir tilmælum og virða sóttvarnareglur. „Við finnum bara mjög sterk viðbrögð við því að það vilji allir leggja sitt af mörkum.“

Fjöldi veikra yfir þúsund í fyrsta sinn frá því í vor

1.017 er nú í einangrun með sjúkdóminn. Þetta er í fyrsta sinn sem fjöldi smitaðra fer yfir þúsund frá því í fyrstu bylgju faraldursins, sem var í byrjun apríl. 

Flestir þeirra sem greindust í gær voru á aldrinum 30 til 39 ára. Rétt tæplega fjögur þúsund manns eru í sóttkví. Langflestir þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu, eða 3.532.