Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Má búast við að verði tugir innlagna á næstu vikum“

11.10.2020 - 19:22
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Meira en þúsund manns eru nú í einangrun með COVID-19 og hafa ekki verið jafn margir síðan í fyrstu bylgju faraldursins í byrjun apríl. Mun fleiri voru á spítala þá en eru núna. Læknir á Landspítala telur að tugir gætu þurft að leggjast inn á næstu dögum og vikum.

Færri á sjúkrahúsi núna en það gæti breyst

Sextíu greindust innanlands í gær. 1.017 er í einangrun með sjúkdóminn. Ekki hafa verið jafn margir veikir á sama tíma og í fyrstu bylgju faraldursins. Þá fór fjöldi í einangrun yfir þúsund þann 1. apríl. Sama dag létust tveir sjúklingar á Landspítala og höfðu þá samtals fjórir látist úr sjúkdómnum. Þá voru 40 á Landspítala, þar af 11 á gjörgæslu og tíu þeirra í öndunarvél.
Núna eru 26 á Landspítala, þar af þrír á gjörgæslu og tveir í öndunarvél. Enginn hefur látist í þessari bylgju. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grafík - RÚV

„Við erum ekki komin það langt inn í þessa bylgju ennþá í ljósi þess að bara á síðustu viku held ég að hafi greinst meira en 500 einstaklingar, og það er oft ekki fyrr en fimm til sjö dögum eftir að einkenni hófust sem að veikindin verða kannski mjög alvarleg hjá þeim sem verða fyrir barðinu á þeim, þannig að það kemur þá í ljós á næstunni,“ segir Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga og endurhæfingarþjónustu á Landspítala. „En það má alveg eins búast við því að það verði einhverjir tugir innlagna jafnvel á næstu vikum,“ segir Runólfur.

Mun fleiri sýni greind en í fyrstu bylgjunni

Runólfur segist telja að sjúkdómurinn sé jafn skæður nú og hann var í vor. „En ég held að við séum að greina mun fleiri en áður og greina fleiri sem hafa mjög lítil einkenni,“ segir hann.

Samtals greindust 1.810 í fyrstu bylgjunni. Aftur á móti er talið að um 1% þjóðarinnar hafi þá smitast, eða um 3.500, en ekki allir fengið greiningu. Fjöldi greindra sýna var enda mun minni þá en nú. 

Einungis einu sinni voru greind fleiri en tvö þúsund sýni á einum degi í fyrstu bylgjunni, en núna hefur fjöldi greindra sýna tuttugu sinnum farið yfir tvö þúsund á dag, og mest voru tekin yfir fimm þúsund sýni á einum degi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grafík - RÚV