Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Landlæknir fer út að ganga og setur svefn í forgang

11.10.2020 - 23:04
Mynd: RÚV / RÚV
Landlæknir segir skiljanlegt að fólk sé óánægt með að geta ekki stundað íþróttir, farið í sund eða líkamsræktarstöð. Allar þjóðir í Evrópu upplifi nú farsóttarþreytu. Hins vegar sé mjög mikilvægt að stunda hreyfingu á hverjum degi og margt sé hægt að gera.

„Það er mjög mikilvægt að hreyfa sig, helst á hverjum einasta degi og það er mælt með svona hálftíma fyrir fullorðna og klukkutíma fyrir börn.  Og hreyfing er góð fyrir andlega líðan, fyrir svefn og hún bara eykur okkur orku,“ segir Alma D. Möller landlæknir. 

Hún segir skiljanlegt að margir séu súrir yfir því að geta ekki stundað formlega íþróttaiðkun. „En í ljósi aðstæðna þá var þetta nauðsynlegt þ.a. við hvetjum fólk bara til að nota ímyndunaraflið, það er auðvitað mjög margt hægt að gera, það er hægt að hreyfa sig heima, það er leikfimi í útvarpinu, það er auðvitað mjög gott að fara út að ganga, það er alveg hægt að hreyfa svo þó að fólk komist ekki í þessar stöðvar og slíkt,“ segir hún. 

Heldur þú þinni geðheilsu með því að labba úti með hann Móa þinn?

„Já, og með því að setja svefn í forgang. Við eigum að sofa sjö til átta tíma og það er eiginlega undirstaðan að öllu öðru,“ segir Alma.