Gleymir ekki svipnum á mömmu að dansa á þingtröppunum

Mynd: Saga Sig / Aðsend

Gleymir ekki svipnum á mömmu að dansa á þingtröppunum

11.10.2020 - 10:30

Höfundar

Katrín Oddsdóttir kynntist eiginkonu sinni, Kristínu Eysteinsdóttur, á galeiðunni í Reykjavík. Þá var Katrín blaðamaður í Neskaupstað og Kristín var í lesbíurokksveitinni Rokkslæðan. Þær ala börnin sín upp í þeirri trú að þau hafi rödd og geti breytt samfélaginu og þannig uppeldi fékk Katrín sjálf hjá móður sinni. Katrín er ein helsta baráttukonan um nýja stjórnarskrá og er að gera þætti um meint skemmtanagildi lögfræðinnar.

Þegar dóttir Katrínar Oddsdóttur lögfræðings og konu hennar, Kristínar Eysteinsdóttur leikstjóra og fyrrum borgarleikhússtjóra, var að kríta í skólanum með öðrum bekkjarsystkinum sínum á dögunum sáu leikskólakennararnir ástæðu til að taka mynd af listaverkinu hennar. Á meðan önnur börn teiknuðu blóm og skrifaði dóttir lögfræðingsins og leikstjórans: HVAR ER NÝJA STJÓRNARSKRÁIN? með krít á flötina. Þegar Katrín fékk að sjá myndina fékk hún endurlit til eigin æsku og hló. „Ég var alin upp með þeim hætti að mamma og pabbi voru mikið að reyna að breyta samfélaginu og láta til sín taka,“ segir Katrín sem barnung tók þátt í aktívisma móður sinnar, Hólmfríðar R. Árnadóttur, sem er ein af stofnendum Kvennalistans.

Þó Katrínu hafi stundum fundist leiðinlegt að hanga með móður sinni á löngum fundum kveðst hún afar þakklát fyrir að hafa fengið að verða vitni að þeim. „Það situr eftir tilfinning um að það sé gaman að berjast fyrir betra samfélagi. Þær voru oft í hláturskasti þessar kerlingar bara yfir öllu, yfir hvað það væri furðulegt að vera í þessari baráttu en líka hvað það væri skemmtilegt að vera óþekkur í henni og að vera í henni saman,“ rifjar Katrín upp í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttir í Segðu mér á Rás 1. „Það var einstök orka í þessu, sem ég varð vitni að, og ég held það sé leiðin til breytinga, akkúrat þessi orka og að berjast fyrir því sem er mikilvægt, en gera það í gleði, af húmor og í jákvæðni, frekar en að vera alltaf að skammast við alla.“

„Stelpur, þetta gæti byrjað hér“

Hún man eftir ógleymanlegu augnabliki með Kvennalistakonunum á Hótel Vík þar sem Katrín sat í horninu á salnum að lita og varð vitni að því hvernig orkan breyttist og varð skyndilega hátíðleg þegar Guðrún Agnarsdóttir læknir tók til máls. „Það setur á hljóð í herberginu og ég hugsaði ókei, það er eitthvað að gerast,“ segir Katrín sem lagði við hlustir. „Hún segir: stelpur, pælið í þessu. Þetta gæti bara byrjað hér. Við gætum valdið breytingum sem gætu farið um allt og hér gæti það byrjað.“ Katrín segir ljóst á þessari stundu að frumur þessara kvenna voru sem samtengdar í einu taugakerfi. „Það er sagt að ef þú setur fullt af fiðlum í eit herbergi og spilar á G-streng á einni fiðlunni þá titri G-strengurinn í þeim öllum. Það var svona stund sem ég varð vitni að. Ég fann að þær trúðu því innilega að þær væru að breyta einhverju fyrir framtíðina og fyrir börnin sín og ég fann að það væri eldsneytið þeirra. Þegar þær náðu tengingu við þessa tilfinningu þá komu svona heilagar stundir eins og þessi, sem ég man síðan ég var sex ára.“

Alvarlegast að þingið hunsi dóm þjóðarinnar

Katrín hefur sannarlega fetað í fótspor móður sinnar því hún er mikill aktívisti sjálf eins og dóttir hennar ber vitni um í krítarlistaverkum sínum. Hún er einn ötulasti talsmaður nýrrar stjórnarskrár og safnar undirskriftum á vefsíðu henni helgaðri. Og þó biðin hafi verið löng síðan þjóðin kaus um stjórnarskrána nýju segir Katrín að í sögulegu samhengi sé tíminn ekki endilega svo langur. „Ef við horfum á söguna þróast og hvað það tekur oft langan tíma að fá nýjan samfélagssáttmála er þetta ekki löng bið,“ segir Katrín. Þó sé staðan að mörgu leyti ískyggilegri hér á landi en í þeim lýðræðisríkjum sem við berum okkur saman við. „Það var þjóðaratkvæðagreiðsla og Alþingi hefur kosið að hunsa niðurstöður hennar. Það er kannski það alvarlega í stöðunni,“ segir hún. „En þetta er bara langhlaup, við tökum eitt skref í einu og að sjálfsögðu sigrum við að lokum.“

Skilgreining á geðveiki að gera hlutina eins en vænta nýrrar niðurstöðu

Katrín Jakobsdóttir skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem hún kveðst vilja efnislega umræðu í þinginu um breytingar á stjórnarskránni. Nafna hennar segist ekki sammála þeirri leið sem forsætisráðherra vilji fara. „Katrín er góð manneskja og dugleg og er væntanlega að gera sitt besta í því sem hún heldur að sé rétt en þetta mun ekki heppnast held ég,“ segir hún. „Það eru bara of margir í samfélaginu núna sem átta sig á hvað er að gerast. Við getum ekki látið bjóða okkur upp á að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu sé hunsuð. Hvorki sem borgarar, foreldrar né manneskjur.“ Katrín svaraði nöfnu sinni með opnu bréfi sem hún kveðst hafa hamrað inn eftir tuttugu kaffibolla. „Ég er manneskja og Kata er bara manneskja og ég tek henni sem slíkri. Ég veit að innst inni skilur hún að einhverju leyti af hverju við erum að heyja þessa baráttu því hún er í grunninn lýðræðissinnuð manneskja. Hún er bara föst í kerfi sem er búið að heilaþvo hana af því að það sé ekki hægt að gera þetta öðru vísi en áður hefur verið gert. Það er hins vegar skilgreining á geðveiki að vera alltaf að gera sama hlutinn með sama hætti og vænta þess að fá nýja niðurstöðu,“ segir Katrín. „Það að hún sé að setja þetta á dagskrá er ákveðinn áfangi að sjálfsögðu og þó þessi aðferð muni ekki heppnast þá vænti ég þess að hún sjái ljósið sjálf eftir að þessi tilraun hefur verið gerð og komi með okkur í að breyta þessu á grundvelli niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Búum við sama kerfi og þegar við riðum til þings á fjögurra ára fresti

Oft hefur Katrín verið beðin um að taka þátt í flokkastarfi og setjast á þing en hún segist ekki hafa áhuga á því á meðan kerfið sé eins og það er. „Ég trúi því að kerfið sem við erum búin að búa til með nýju stjórnarskránni sé fúnkerandi en kerfið sem við búum við núna sé það ekki. Við verðum að átta okkur á að þetta er kerfi sem var búið til þegar við riðum á hestum á fjögurra ára fresti á Þingvelli til að kjósa. Það hefur ýmislegt breyst síðan,“ segir Katrín. „Það að fólk sé útilokað frá valdinu og að maður þurfi að skríða á Bessastaði til að biðja forsetann um leyfi til að að fá að taka afstöðu til stórra mála gengur ekki. Við erum ekki lengur aumir þrælar, við erum upplýst þjóð.“

Þó Katrín gefist ekki auðveldlega upp þá gerir hún það stundum, enda segir hún það í sumum tilfellum eiga við. „Ég er ekki á því að það eigi  að hamast alltaf þar til rauður dauðinn rís og það að skipta um skoðun er fallegt. Það að játa að maður hafi haft rangt fyrir sér er líka fallegt en í þessu máli líður mér ekki þannig,“ segir hún. Og hópurinn sem er í framlínu í baráttunni með Katrínu segir hún að sé stór og á fundum með þeim fyllist hún þakklæti fyrir að fá að berjast í málinu. „Við færumst alltaf nær takmarkinu sem er mjög gefandi þannig að það er ekki ein einasta tilfinning í mér um að gefast upp eða leggja árar í bát. Þvert á móti.“

Án laganna leysti fólk deilumál með kylfum

Katrínu langaði lengi að verða listamaður en fannst það svo ekki eiga við sig. Lögfræðin hafði ekki hvarflað að henni fyrr en hún fór í meistaranám í mannréttindum í London og var nauðbeygð til að tileinka sér hana í því námi. „Ég hugsaði: Jæja, það má afplána þann djöful. En svo settist ég á skólabekk og man þar sem lögfræðikennarinn var mættur á svæðið að það var eins og í bandarískri bíómynd. Ég eiginlega sá ljósið, kláraði námið og dreif mig heim. Tók eiginlega bara alla lögfræði sem ég gat,“ segir Katrín og fullyrðir að lögfræðin sé stórkostleg þegar vel er að gáð. „Einu sinni var fólk að leysa deilumál með því að koma með kylfu og slá einhvern í hausinn en svo fundum við aðferð til að leysa úr okkar ágreiningsmálum með friðsamari hætti og byrjuðum að setja okkur allar þessar reglur.“

„Dorrit? Er það einhver snakktegund?“

Á Írlandi lærði Katrín líka blaðamennsku. Þar bjó hún í fjögur ár og heillaðist algjörlega af landi og þjóð. Þegar heim var komið flutti hún tímabundið í Neskaupstað þar sem hún skrifaði fyrir Austurgluggann. Henni líkaði vel að vera þar en fann sig engan veginn sem blaðamaður á Séð og heyrt þar sem hún stoppaði stutt eftir komuna til Reykjavíkur. „Það var skelfileg lífsreynsla,“ segir Katrín sem aldrei hefur verið með á nótunum í slúðurmálum. „Ég hafði verið í sambandsleysi á Hornströndum í viku þegar mamma sagði, Kata sestu niður. Díana er dáin, og ég bara: Díana hver?“ rifjar Katrín upp. „Það segir svo mikið um hvað ég er illa að mér, ég var ekkert inni í þessu.“ Starfið á slúðurmiðli var því afar flókið fyrir hana. „Ég var bara, Dorrit? Er það einhver snakktegund?“

Mynd með færslu
 Mynd: Katrín Oddsdóttir - Facebook
Hjónin Katrín og Kristín kynntust á galeiðunni í gegnum sameiginlega vini.

„Ég átti heima í Neskaupstað og við urðum ástfangnar“

Kristínu Eysteinsdóttur kynntist Katrín í Reykjavík í gegnum sameiginlega vini þegar hún var enn búsett í Neskaupstað og í heimsókn í borginni. „Hún var náttúrulega svaðaleg á þessum tíma, var í lesbíuhljómsveit sem hét Rokkslæðan og var að æsa upp mann og annan í einhverju rugli,“ segir hún. „Ég átti heima í Neskaupstað og við urðum ástfangnar. Hún var alltaf að koma til mín í nokkra daga í viku og þá dró ég hana í fréttasöfnun um fjörð og annan.“

Katrín er nú í doktorsnámi en vinnur líka fyrir Öryrkjabandalagið kennir í Háskólanum í Reykjavík. „Mér finnst svo gaman að vera í mörgu samtímis en það sem ég ætla að gera er að halda áfram endalaust þar til við fáum þetta,“ segir Katrín sem vísar þar til nýrrar stjórnarskrár. Hún gengst við því að verða nokkuð æst þegar hún talar um þessi hugðarefni sín. „Æst er náttúrulega miðjunafnið mitt,“ segir hún og kennir þar uppeldinu að hluta til um. „Það er stór hluti af minni forritun að standa einhvers staðar að berja í pott og hrópa á einhverja byggingu.“

Einlæg gleði foreldranna yfir samstöðunni

Faðir Katrínar lést fyrir nokkrum árum og móðir hennar fékk heilablóðfall. Katrín minnist þess með þakklæti hvað þau voru stolt af samlöndum sínum í búsáhaldabyltingunni. „Þau sem höfðu alltaf verið að berjast fyrir breytingum voru allt í einu hluti af einhverjum þúsund manna hópi,“ segir Katrín. „Og svipurinn á mömmu þar sem hún var að dansa eftir einhverjum sambatakti við Vanhæf ríkisstjórn, þessi einlæga gleði yfir að við værum loksins að vakna og værum svona mörg að ná að breyta. Það var ógleymanleg stund að sjá hana í essinu sínu sem hún hafði verið í í mörg ár en alltaf með sömu fimmtíu hræðunum í lopapeysum fyrir framan einhver sendiráð með kaldar tær. Allt í einu vorum við tugþúsundir saman.“

Katrín er um þessar mundir að gera þætti um lögfræði á mannamáli sem eiga að vera aðgengilegir öllum hvort sem þeir hafa lögfræðivit eður ei. Og Katrín lofar skemmtun. „Lögfræði er skemmtileg og hún er ótrúlega mennsk. Þegar maður les dóma er það stundum eins og að lesa kafla í Íslendingasögum. Þetta eru sögurnar okkar,“ segir hún að lokum.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Katrínu Oddsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á allt viðtalið og eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

„Kom að þeim punkti að það var ekki annað hægt“

Leiklist

Hélt hún yrði alltaf ein eftir skilnaðinn

Leiklist

Sveppi er sá eini sem kann ekki danssporin