Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dregur smám saman úr úrkomu og birtir til

11.10.2020 - 07:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Finnur Þór Dýrfjörð
Í nótt hefur verið allhvöss suðaustanátt með rigningu sunnan- og vestanlands en mun hægari vindur og þurrt að kalla í öðrum landshlutum.

Í pistli veðurfræðings á Veðurstofu Íslands  kemur fram að skilin sem þessu valda færist norðaustur yfir landið í dag. Þó er búist við að dragi úr þeim er líður á daginn.

Í kvöld er útlit fyrir fremur hæga vestanátt og skúri um vestanvert landið en leifar skilanna yfirgefa Austurlandið ekki fyrr en uppúr hádegi á morgun. Annars er útlit fyrir norðvestan stinningsgolu eða kalda á morgun, en eitthvað hvassara verður framan af degi Suðaustanlands.

Einnig mun draga úr úrkomu og birta til. Í vikunni segir veðurfræðingur að verði stífar suðlægar áttir með úrkomu af og til vestantil á landinu en annars ríki almennt hægir vindar og blíðviðri. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV