Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

COVID verri en allar síðustu kreppur fjölmiðlanna

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Blaðaútgefandi með 38 ára feril að baki segir að COVID-ástandið sé verra en nokkur niðursveifla sem hann hefur áður gengið í gegnum á sínum fjölmiðlaferli. Annar útgefandi segir fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra lífsnauðsyn eftir að auglýsingamarkaðurinn hrundi.

„Það er búið að vera eiginlega hálfgert hrun á auglýsingamarkaðnum þannig að við erum bara að berjast,“ segir Páll Ketilsson, ritstjóri og eigandi Víkurfrétta. Aðstandendur miðilsins hafa reynt tryggja fjárhag fyrirtækisins í tekjumissi og bregðast við því að mörg hefðbundin umfjöllunarefni eru einfaldlega ekki í gangi vegna faraldursins.

Víkurfréttir hættu að koma út á prenti í upphafi COVID-faraldurs, að hluta vegna breytinga hjá póstinum og varð útgáfan þá alfarið rafræn, þar til farið var að dreifa prentuðum eintökum í búðir í haust. Páll segir að rafræna útgáfan hafi fengið vel en ljóst að margir vilja enn fá sín blöð á prenti, sérstaklega eldri lesendur en þó ekki einvörðungu þeir.

Páll hefur gefið Víkurfréttir út frá 1982, í alls kyns hagsveiflum, en kannast ekki við sambærilega erfiðleika og nú. „Nei, ef maður ber saman við eitthvað sem hefur gengið erfiðlega í gegnum tíðina þá er þetta erfiðasta verkefni sem við höfum átt við.“

Ekki framtíð án frumvarpsins

Aðrir útgefendur hafa ekki farið varhluta af erfiðleikunum. „Auglýsingamarkaðurinn hefur breyst það mikið að við sjáum ekki framtíð í þessum bransa nema frumvarpið verði að veruleika,“ segir Magnús Magnússon, ritstjóri og eigandi Skessuhorns. Hann vísar til frumvarps Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla.

Skessuhorn nýtur þó góðs af því að vera áskriftarblað og heldur í þær tekjur þótt svo auglýsingatekjurnar hrynji. Magnús segir fjölmiðla mikilvægari en nokkru sinni fyrr, þegar fólk geti ekki verið í jafn miklum samskiptum og alla jafna. Auglýsingasíðum hefur fækkað og blaðið því minnkað úr 32 síðum í 24 til 28 en þó þannig að lesefnið heldur sér, segir Magnús. „Við höfum bara brugðist við því með því að skrifa fleiri fréttir og reyna að vera tánum. Það er það eina sem við getum gert.“

Erfiður rekstur

Rekstur fjölmiðla hefur verið erfiður síðustu ár. Fjölmiðlafrumvarpi menntamálaráðherra var ætlað að koma til móts við þá stöðu en það hefur ekki verið afgreitt á Alþingi. Einkareknir fjölmiðlar fengu samtals 400 milljóna króna styrk fyrir skemmstu til að mæta efnahagslegum áföllum COVID-19. Það er sama fjárhæð og ætluð var í fjölmiðlastyrki samkvæmt frumvarpinu sem hefur ekki náð fram að ganga. Lengst af var gert ráð fyrir 50 milljóna króna þaki á styrki en það var hækkað í hundrað milljónir á lokasprettinum. Því fengu Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins, og Sýn, útgefandi Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, 99 og 91 milljón króna, og Torg útgefandi Fréttablaðsins og Hringbrautar 64 milljóna styrk. Önnur fyrirtæki fengu minna. Þessi styrkur er þó aðeins ein stök greiðsla en ekki árviss styrkur eins og stefnt hefur verið að með frumvarpi menntamálaráðherra.

Fyrir helgi var svo tilkynnt um að ellefu héraðsfréttamiðlar fengju samtals 25 milljónir króna á fimm árum. Það þýðir að hver og einn fær 455 þúsund krónur á ári, til viðbótar því sem þeir fengu úr styrkgreiðslunni í haust.

Páll og Magnús nefndu báðir að samfélagsmiðlar tækju til sín mikið af auglýsingatekjum.