Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Brúðkaupsdagurinn 10102020 COVID að bráð

11.10.2020 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Nokkuð er um að pör hafi afbókað fyrirhugaðar hjónavígslur í gær 10. október 2020, vegna samkomutakmarkana. Allmörg hjónaefni horfðu hýru auga til þessarar skemmtilega samsettu dagsetningar sem hægt er að skrifa 10102020.

Bókanir virðast þó ekki hafa verið jafnmargar og fyrir hlaupársdaginn 29. febrúar síðastliðinn. Prestar sem fréttastofa hafði tal af töldu þó talsvert hafa verið um hjónavígslur í gær og að nokkrum þeirra hefði verið streymt á samfélagsmiðlum.

Prestarnir höfðu þó á orði að brúðkaup væri mjög samfélagsleg athöfn þar sem fjölskyldur og vinir fagna með nýbökuðu hjónunum. Tuttugu manna samkomutakmarkanir drægju mjög úr, sem gæti meðal annars útskýrt afbókanir.

Þau sem hættu við hafi almennt verið sátt við að bíða uns betur stendur á. Einn prestur hafði til að mynda bókað fimm brúðkaup í gær en endaði með að gefa eitt par saman.

Athöfnin reyndist þó verða mjög skemmtileg með óvæntri uppákomu vina brúðhjónanna fyrir utan kirkjuna, þar sem öllum sóttvarnarreglum var fylgt.

Prestarnir voru líka sammála um að allt væri gert til þess að koma í veg fyrir að fólk yrði útsett fyrir smitum. Til að mynda hefðu brúðir ekki farið í hárgreiðslu og naglaásetningu líkt og oft hefur verið venjan. Næsta vinsæla dagsetning sem tveir prestar nefndu er níundi október 2021.