Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Baráttan milli Bjarkar, Blur og Oasis

Mynd með færslu
 Mynd: Björk / www.elpais.com.uy - Samsett mynd

Baráttan milli Bjarkar, Blur og Oasis

11.10.2020 - 16:30

Höfundar

Það kennir ýmissa grasa á íslenska Topp 40 listanum í byrjun október árið 1995. Baráttan milli Oasis og Blur var áberandi hjá þjóðinni en tónlistarkonunni Björk Guðmundsdóttur tókst þó líka að blanda sér í leikinn með lagi af plötunni Post.

Ellismellir eru nýir þættir á dagskrá á Rás 2 á sunnudögum þar sem ferðast er aftur í tíman og vinsældalistar fyrri ára eru skoðaðir. Þennan sunnudaginn förum við aftur til ársins 1995 og skoðum íslenska listann í þessari viku fyrir tuttugu og fimm árum.

Páll Óskar og Unun með lagið „Ástin dugir“, Ali Campbell, hljómsveitin Supergrass og lagið „Alright“ eru meðal þeirra sem sitja á listanum en auk þeirra má nefna Sálina hans Jóns míns, Blues Traveler og stórsmellinn „Missing“ með Everything But the Girl sem situr í tíunda sæti listans.

Í ágúst árið 1995 opnaði nýtt leikhús í Reykjavík, Loftkastalinn. Fyrsta sýningin sem sett var upp þar var söngleikurinn Rocky Horror þar sem leikarar á borð við Helga Björns, Hilmi Snæ, Björn Jörund, Valgerði Guðna og Halldóru Geirharðs, stigu á svið. Allt saman var þetta í leikstjórn Baltasars Kormáks. Lagið sem situr í áttunda sæti íslenska listans þessa vikuna árið 1995 er einmitt úr þessari sýningu, lagið „Vísindaspuni“, sem sungið er af Birni Jörundi.

Í fjórða sæti eftir fjórar vikur á lista var svo söngkonan Celine Dion og lagið „Pour Que Tu M'aimes Encore“. Fyrir tveimur vikum skoðuðu Ellismellir íslenskan vinsældalista frá árinu 1984 þar sem Wham og Duran höfðu barist um hylli þjóðarinnar. Árið 1995 má segja að baráttan um hylli þjóðarinnar hafi verið álíka hörð en það voru þá hljómsveitirnar Oasis og Blur. Þriðja sætið þessa vikuna fór til Oasis og lagsins þeirra, „Roll With It“. 

Árið 1995 var svo risaár í íslenskri poppsögu en þetta er árið sem platan Post ,með tónlistarkonunni Björk, kom út. Platan hlaut gríðarlega góða dóma út um allan heim og komst meðal annars í þrítugasta og annað sæti á ameríska listanum. Fyrsta smáskífa plötunnar var „Army of Me“ en önnur smáskífan var lagið „Isobel“. Mörgum hafði þótt djarft að gefa lagið út sem smáskífu en Björk var viss í sinni sök. Lagið situr hér í öðru sæti íslenska listans en texti lagsins er saminn af Sjón og byggir á sögu eftir Björk sjálfa.

Það voru svo drengirnir í Blur sem vermdu efsta sætið, eins og þeir höfðu gert vikurnar á undan, með laginu „Country House“, Oasis aðdáendum landsins til mikils ama. 

Farið var yfir íslenska vinsældalistann árið 1995 í Ellismellum á Rás 2. Þátturinn er á dagskrá á sunnudögum klukkan 15 en sömuleiðis má hlusta á hann í spilara RÚV. Ef þig langar að heyra ákveðinn lista í þáttunum má senda tillögur á Facebooksíðu Rásar 2.