Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Auðvitað á fólk að vera með grímur“

11.10.2020 - 20:36
Mynd: Zoom / RÚV
Grímur eru einföld leið til að stöðva útbreiðslu faraldursins og óskiljanlegt að þær séu ekki skylda víðar, segir Erna Milunka Kojic íslenskur smitsjúkdómalæknir í New York. Þar er grímuskylda bundin í lög og önnur bylgja faraldursins hefur enn ekki risið.

Erna Milunka stjórnar aðgerðum á tveimur sjúkrahúsum í New York. Ástandið þar var skelfilegt í vor og þegar mest lét létust yfir þúsund á dag. „Fólk var að deyja og aðstandendur gátu ekki verið með sínu fólki þegar það var á sinni hinstu stundu og ég er með mörg dæmi til dæmis að eldra fólk sem var búið að vera gift í 50 ár, oft kom þetta upp; aldrei grunaði mig að maðurinn minn ætti eftir að deyja og ég er ekki þar. Þannig að þetta var tilfinningalega erfitt, þetta tók á tilfinningalega alveg klárlega,“ segir Erna Milunka.

Lengri útgáfu af viðtalinu við Ernu Milunku má heyra hér fyrir neðan. Þar fer hún yfir ástandið í vor og stöðuna í dag. Þá ræðir hún lyfið Regeneron sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kallað lækningu og misvísandi upplýsingar frá Hvíta húsinu um faraldurinn og fleira.

Mynd: Zoom / RÚV

Síðan í júní hefur ástandið hins vegar verið nokkuð stöðugt og ekki hægt að tala um aðra bylgju þar. Ástæðan segir Erna eru víðtækar skimanir og að það sé úthugsað hvernig starfsemi og stofnunum er leyft að fara af stað að nýju - sums staðar sé enn lokað.  „Í síðasta mánuði opnuðu söfn og svoleiðis hlutir en það er ekki allstaðar sem það er allt opið.“

Hún segir að þegar hópsýkingar komi upp sé strax gripið til lokana. „Það er ekki öllu lokað aftur allstaðar heldur bara í ákveðnum póstnúmerum. Það er eins og ég segi lagaleg skylda að vera með grímur og þessu er fylgt vel eftir. Við erum búin að standa í þessu mjög lengi. Við fórum aldrei í neitt normal. Við höfum ekki verið í neinu pre-COVID ástandi síðan þetta byrjaði.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Kristján Þórisson - RÚV
Kúrfan hefur ekki farið upp aftur í New York.

Þegar hún er spurð að því hvort hún telji grímuskyldu eigan stóran þátt í að önnur bylgja hafi ekki enn risið sé enn ekki farin á fullt skrið í New York segir hún. „Grímunotkun, þetta er bara svo einfalt. Og þetta hefur verið sannreynt í gegnum tíðina að grímunotkun virkar. Það er óskiljanlegt af hverju þetta er ekki í gangi auðvitað á fólk að vera með grímur. Það er endalaust hægt að þræta um það hvort það eigi að vera einn metri, tveir metrar eða tíu metrar - það skiptir ekki máli ef allir nota grímur þá er hægt að minnka útbreiðslu á veirunni. Þetta er einfalt, bara einföld gríma.“