Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

162 hektarar votlendis endurheimtir á tveimur árum

Mynd með færslu
Unnið að endurheimt votlendis við Bessastaði. Mynd: Votlendissjóður
Árleg losun 480 tonna af koltvísýringi verður stöðvuð með endurheimt votlendis í landi Kirkjubóls í Korpudal við Önundarfjörð. Það mun vera sambærilegt magn koltvísýrings og kemur árlega frá 240 nýlegum fólksbílum.  

Hið endurheimta svæði er 24 hektarar, en framkvæmdum lýkur þar í fyrramálið, um viku fyrr en áætlað var. Verkið hófst fyrsta október og búist var við verklokum 15. október.  

Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, segir í samtali við fréttastofu að á þessu ári hafi losun koltvísýrings verði stöðvuð á 89 hekturum lands sem sé meira en á síðasta ári.

Þá hafi um 73 hektarar verið endurheimtir. Einar kveður það nema um 1780 tonnum koltvísýrings árlega eða jafngildi þess sem 890 nýlegir fólksbílar gefa frá sér.   

Einar hefur að eigin sögn orðið æ meira meðvitaður um umhverfismál og hafi viljað láta til sín taka. „Það er gaman að sjá áþreifanlegan árangur af hverri aðgerð,“ segir Einar og bætir við að á hverjum tíu árum sparist mörg þúsund tonn af koltvísýringi.  

Hann bendir á að það sé ekki skurðurinn sjálfur eða rof í börðum hans sem losi gróðurhúsalofttegundir heldur hið framræsta og þurrkaða land sem áður hafði notið einangrunar undir vatnsyfirborðinu. 

Við framræsinguna og þurrkinn í framhaldinu hefjist rotnun á uppsöfnuðu lífrænu efni árhundruð aftur í tímann. Með endurheimtinni sé því afstýrt og rotnunin kæfð á nýjan leik. 

Einar segir morgundaginn því verða einn hátíðisdagurinn enn í starfsemi Votlendissjóðs en ekki síður landeigenda á Kirkjubóli. Fyrir 50 árum var jörðin framræst af ríkinu í óþökk eigenda hennar sem á tímabili misstu yfirráðarétt yfir henni.

Þannig hafi ríkið greitt fyrir framræsingu á jörð sem var aldrei nýtt. Nú um hálfri öld síðar sé það einkarekinn sjóður sem greiði fyrir endurheimt jarðarinnar.