Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Svo heyrði ég drunur bergmála yfir mér“

Mynd: RÚV / Kiljan

„Svo heyrði ég drunur bergmála yfir mér“

10.10.2020 - 13:04

Höfundar

Þriðja skáldsaga Jónasar Reynis Gunnarssonar heitir Dauði skógar og fjallar um óreiðu í lífi manns sem hefur ástríðu fyrir skógrækt og þráir griðarstað í stopulli tilveru. Kveikjan að sögunni kom til hans á heimaslóðum í Fellabæ en hann hefur unnið að henni í hartnær fjögur ár.

Jónas segir að bókin fjalli um fjölskylduföður í litlu þorpi á landsbyggðinni, smið sem sé búinn að selja verkstæðið sitt, sitji á talsverðum fjármunum, og viti ekki alveg hvað hann eiga að gera næst. „En aðalástríða hans í lífinu er skógur sem hann og pabbi hans hafa ræktað rétt fyrir utan þorpið, og titillinn vísar meðal annars í það. Það gerist svo eitt haustið eftir miklar rigningar að það fellur aurskriða í hlíðinni þar sem skógurinn stendur. Stuttu síðar koma þar í ljós sprengjur frá seinni heimsstyrjöldinni í jarðveginum.“

Það er mikil óreiða í lífi aðalpersónunnar og Jónas Reynir segir að hugmyndin að bókinni hafi kviknað heima í Fellabæ á Fljótsdalshéraði. „Ég var í sumarfríi úti á palli við heimili foreldra minna. Það var sólríkur dagur og ég sat þarna að drekka kaffi og lesa bók, og tók eftir augnablikinu sem ég var í, hvað það var friðsælt. Svo heyrði ég drunur bergmála yfir mér og þá var það herþota í eftirlitsflugi fyrir NATO. Þessar andstæður sátu mikið í mér, friðsældin og svo áminningin um að staðurinn sem ég var á tilheyrði þrátt fyrir allt veröldinni sem er miskunnarlaus, stríð geisa og skógareldar brenna.“ Þessi tilfinning hafi svo myndað undirstöður söguhetju bókarinnar. „Það er óeirð í hans lífi, og þessi þrá eftir griðarstað verður að hans þrá og örvæntingu. Hann vill eiga sinn griðarstað og halda lífi sínu saman en tilheyrir samt veröldinni og vandmálin dynja á honum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kiljan
Í bókinni má finna sérkennilegar krassteikningar.

Skógar eru margs konar myndlíkingar í sögu Jónasar og hann vísar meðal annars aftur í skóginn sem var á Íslandi fyrir landnám. Hann segir það eiga til að gerast þegar hann er að skrifa að hann missi völdin á sögunni og rödd sögumannsins taki yfir. „Á einhverjum tímapunkti fannst mér ég vera að þjóna þessum sögumanni.“ Dauði skógar hefur verið lengi í smíðum en Jónas segist hafa byrjað að skrifa hana áður en fyrstu bækurnar hans komu út haustið 2017. „Ég er yfirleitt með nokkrar í gangi í einu, ég verð mjög órólegur ef ég hef ekki neitt fyrir stafni.“ Í bókinni á einum stað finna eins konar krassteikningar. „Þetta er ákveðið móment þar sem lesandi rennur saman við sögumanninn, og þú sérð það sem hann er að sjá.“

Egill Helgason ræddi við Jónas Reyni í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Þúsaldarkynslóðin kortlögð í skáldsögum

Bókmenntir

Íslenskur djammveruleiki í skáldsögu

Bókmenntir

„Feykigóð byrjun“

Bókmenntir

„Ég á mér ekkert líf annað en að skrifa“