Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Rússar vilja ræðismann á Grænlandi

10.10.2020 - 03:38
Mynd með færslu
Nuuk. Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Rússneski utanríkisráðherrann Sergei Lavrov greindi danska starfsbróður sínum Jeppe Kofod frá því í gær að hann hefði áhuga á að skipa kjörræðismann í Grænlandi. Danska ríkisútvarpið hefur þetta eftir fréttamanni sínum í Rússlandi, Matilde Kimer. Hún segir Lavrov hafa komið út af fundi þeirra Kofod í Moskvu í gær og lýst þessu yfir. Kvaðst Lavrov jafnframt hafa fengið jákvæðar viðtökur við ósk sinni.

Grænland spilar lykilhlutverk á Norðurslóðum og vilja Rússar greinilega styrkja stöðu sína þar að sögn Kimer. Kjörræðismaður er ekki starfsmaður utanríkisráðuneytis viðkomandi ríkis, en aðstoðar við að leysa verkefni.

Í fyrra bárust fregnir af því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi viðrað þá hugmynd að kaupa Grænland af Danmörku. Aldrei varð af því að sú hugmynd kæmi á borð stjórnvalda ríkjanna. Í ár opnuðu Bandaríkin sendiráð í Nuuk. Bandarískur sendiherra hafði ekki starfað í landinu síðan 1953.