Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Óþverri í grænu tunnu gerir sorpflokkurum lífið leitt

10.10.2020 - 20:47
Allt of algengt er að fólk setji matarafganga og ýmiss konar óþverra í grænu endurvinnslutunnuna. Þar með spillist plast og pappír sem er verðmætt endurvinnsluefni. Kæruleysi og óþvegnar jógúrtdósir gera ruslaflokkurum lífið leitt.

„Margir hverjir hafa ekki hugmynd um hvað fer fram hérna. Ég held að það væri sniðugt að bjóða fólki til að sjá hvað við erum að gera hérna,“ segir  Ólafur Ragnarsson, flokkari hjá Íslenska gámafélaginu á Reyðarfirði. Þar er dregið í sundur það sem fer í grænu endurvinnslutunnuna á mestöllu Austurlandi. Plast og járn eru tekin úr en pappír látinn vera á bandinu og hann endar í pressunni. Vandmálið er að þarna birtist ófögnuður sem ekki á heima í endurvinnslu.

Óhreinar hendur, óþefur og maðkar á bandinu

„Maður á nú að vera að flokka endurvinnslu og maður býst ekkert við að fá fullt af gumsi á hendurnar og þurfa að halda fyrir nefið allan daginn. Þetta er bara ógeðslegt. Það á ekkert að vera svona,“ segir Alexander Ingi Jónsson, flokkari.

„Það er búið að senda svo mikið af tilkynningum um hvernig á að flokka þetta en fólk gerir það ekki. Við fáum allt aftur til baka það sem hefur verið sent. Stundum eru komnir maðkar á bandið. Þeir hafa bara sturtað í,“ segir Guðni Ragnar Valdórsson, flokkari.

Langflestir standa sig vel en hinir spilla fyrir

Samkvæmt upplýsingum frá Íslenska gámafélaginu er flokkunin til sóma hjá flestum og eðlilegt að um 3% spillist af því sem er í grænu tunnunni. En í sumum bæjarfélögum kemur fyrir að þetta hlutfall fer upp í 20%. Fyrirtækið veit af húsum þar sem rusl er ekki flokkað og þá er græna tunnan skilin eftir og tekin síðar með almennu sorpi. Erfitt er hins vegar að gera slíkt við tunnur þar sem óþverri leynist inn á milli.

„Þeir sem flokka samviskusamlega, það eru aðrir sem skemma fyrir þeim. Ef koma sorppokar í þessu þá smitar þetta út frá sér og er að eyðileggja þetta sem er gott hráefni. Það kemur fyrir stundum að við fáum sprautunálar sem koma hérna eftir færibandinu,“ segir Ólafur og grípur upp fjólubláan gúmmíhanska sem einhver hélt að ætti að fara í endurvinnslu. „Þetta á ekkert að fara í grænu tunnuna. Þetta á bara að fara í sorpið og svo er mikið af andlitsgrímum líka sem koma í endurvinnslunni sem eiga heima í sorptunnunni,“ segir Ólafur.

Auðvelt að létta flokkurunum lífið

Í hverjum mánuði fara 40 tonn af endurvinnanlegum efnum frá Reyðarfirði sem annars hefðu endað í urðun. Þetta gerist með óteljandi handtökum og flokkararnir þurfa líka að handleika smásnifsi. Gerir lítið til af þau eru úr pappír en allt plast og járn þarf að vinsa úr. Alexander grípur poka af bandinu. „Þetta er bara plast í glærum plastpoka. Svona viljum við sjá þetta. Við sjáum að þetta er allt hreint plast og við getum bara sett þetta beint í karið,“ segir hann.

„Þeir halda ábyggilega að þessu sé mokað beint upp í vél. Þeir vita það ekki margir hverjir að við séum að handleika þetta alla daga,“ segir Ólafur.

„Það er ekki hægt að hafa þetta svona. Maður fær bara ógeð og getur ekki étið einu sinni út af þessum viðbjóði. Því er nú andkotans verr,“ segir Guðni.

„Það væri nú fínt ef fólk myndi bara hugsa til okkar einu sinni þegar það er að flokka,“ segir Alexander Ingi.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV