Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Munir tengdir Lennon varðveittir fyrir framtíðina

epa06340629 (FILE) - A b/w picture taken 25 March 1969 shows late Beatles singer John Lennon and his wife, Yoko Ono, at the Hilton Hotel in Amsterdam (reissued 20 November 2017). Police in Berlin, Germany, have recovered stolen diaries and other items
John Lennon og Yoko Ono, nýgift á Hilton hótelinu í Amsterdam árið 1969. Mynd: EPA-EFE - ANP

Munir tengdir Lennon varðveittir fyrir framtíðina

10.10.2020 - 12:30

Höfundar

Innsiglað málmhylki sem geymir ýmsa muni tengda lífsstarfi Johns Lennons er varðveitt á Borgarbókasafni Reykjavíkur. Hylkið og þrjú önnur varðveitt annars staðar má ekki opna fyrr en 2040, þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu Lennons.

Fyrir tíu árum, á sjötugsafmæli Lennons, voru fjögur minningarhylki um listamanninn innsigluð í Frægðarhöll og safni rokksins. Safnið útbjó hylkin í samvinnu við Box of Vision LLC og Yoko Ono, ekkju Johns.

Í blaðafréttum fyrir tíu árum kom fram að hylkin geymdu allar sólóplötur Lennons, nýleg skrif um hann, listaverk hans, myndefni og árnaðaróskir frá aðdáendum hans. Auk þess er þar að finna búnað til að mögulegt verði að spila plöturnar árið 2040.

Sigurður Jakob Vigfússon verkefnastjóri safnkosts hjá Borgarbókasafninu staðfestir að þetta sé innihald hylkisins. Fyrir utan Borgarbókasafn Reykjavíkur eru hylki varðveitt í Frægðarhöll rokksins, í John Moores University's School of Art and Design í Liverpool og í Japan.

Í aðdraganda hátíðardagskrár Borgarbókasafnsins við móttöku hylkisins fyrir tíu árum var aðdáendum Lennons boðið að senda safninu tónlist og hugleiðingar um hann. Það var allt innsiglað til að verða afhjúpað á sama tíma og innihald hylkisins sjálfs þann 9. október 2040.

Sigurður Jakob segir hylkið, sem hann telur vera um 60x40 sentímetra að ummáli, hafa verið til sýnis frá því kringum afmælisdag Lennons og fram að andlátsdegi hans í desember. Nú sé safnið lokað en gripið hafi verið til tækninnar í staðinn. 

Minningarbók segir Sigurður að hafi legið frammi í bókasafninu ár hvert, þar sem fólk getur ritað hugleiðingar um Lennon. Nú sé sú fyrsta orðin full og því tímabært að opna nýja.

Tengdar fréttir

Tónlist

Eddie Van Halen og John Lennon

Mannlíf

Abbey Road plata Bítlanna 50 ára