Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Maður lést í húsbílabruna í Árnessýslu

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurlandi
Líkamsleifar fundust í húsbíl sem brann í landi Torfastaða í Grafningi í Árnessýslu um klukkan 13:30 í dag. Talið er að líkamsleifarnar séu af manni á fertugsaldri. Aðstandendum hans hefur verið tilkynnt um málið.

Lögreglan á Suðurlandi biður þá sem telja sig hafa orðið vara við eld eða reyk á þessum slóðum í nótt eða framan af degi eða búa yfir upplýsingum sem kunna að skipta máli við rannsóknina að hafa samband í síma 444-2000, á Facebook eða með tölvupósti á [email protected].

Í tilkynningu lögreglunnar segir að það eigi eftir að taka nokkurn tíma að staðfesta með fullri vissu auðkenni mannsins. Auk lögreglumanna af Suðurlandi komu fulltrúar tæknideildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að rannsókninni, réttarmeinafræðingar og fulltrúar kennslanefndar ríkislögreglustjóra. Eldsupptök eru ókunn.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV