Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Loftslagsumræðan fellur í skugga veirunnar

Mynd: ASSOCIATED PRESS / AP
Kórónuveirufaraldur hefur varpað skugga á það nauðsynlega samtal sem þjóðir heims þurfa að eiga um aðgerðir í loftslagsmálum, nú þegar 5 ár eru liðin frá undirritun Parísarsáttmálans. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP26, átti að fara fram í Glasgow en var frestað til næsta árs og ómögulegt er að spá fyrir um hvað verður rætt þar. Fiona Harvey, verðlaunablaðamaður breska blaðsins Guardian, segir þó að Parísarmarkmiðin verði að vera aðalmál á dagskrá.

Í forsetakappræðum í Bandaríkjunum árið 2000 var frambjóðandi Demókrataflokksins, Al Gore fyrrum varaforseti í ríkisstjórn Bills Clintons, spurður af stjórnanda kvöldsins, Jim Lehrer, hvort hann héldi því enn fram eins og hann gerði í bók frá árinu 1992 að umhverfismálin ættu að vera á oddi stjórnmálanna. Gore svarar því játandi og vísar strax í rannsóknir loftslagsvísindamanna á Norður- og Suðurheimsskautinu. Þetta ætti að hafa í huga þegar stjórnmálamenn taka ákvarðanir. Þegar George W. Bush, þá ríkisstjóri í Texas og frambjóðandi Repúblíkana, var líka spurður út í þetta og svaraði að það ætti að þetta taka alvarlega. Ekki væri þó fast í hendi hvaða lausnir stæðu til boða og yfirhöfuð hvað ylli hnattrænni hlýnun.

Í þau tuttugu ár sem liðin eru frá þessum kappræðum hafa forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum ekki verið spurðir hreint út í afstöðu sína til loftslagsbreytinga eða hugsanlegra aðgerða til að sporna við þeim. Það var ekki fyrr en 29. september síðastliðinn að Chris Wallace gerði það að umtalsefni í fyrstu kappræðum ársins 2020. 

Forsetakappræðurnar í síðustu viku milli Joe Biden og Donald Trump voru athyglisverðar svo vægt sé til orða tekið. Af þeim 90 mínútum sem fóru í frammíköll og fúkyrðakast var 10 mínútum, undir lokin, varið í að ræða loftslagsbreytingar og þá aðsteðjandi hættu sem af þeim stafar. Þessar 10 mínútur þykja reyndar ekki merkilegar rökræður þegar kemur að þessum málaflokki fyrir utan það að þetta er í fyrsta sinn í 20 ár sem málaflokkurinn kemst að hjá spyrli. Og í kjölfarið er kannski vert að spyrja hvers vegna?

epa08729156 (FILE) - US President Donald J. Trump (L) and Democratic presidential candidate Joe Biden (R) participate with Moderator Chris Wallace (C) in the first 2020 presidential election debate at Samson Pavilion in Cleveland, Ohio, USA, 29 September 2020 (reissued 08 October 2020). Following the Commission on Presidential Debates announcing 08 October 2020 the change in format of the second presidential election debate, US President Donald Trump said he will not participate in a virtual debate with Democratic nominee Joe Biden. The first presidential debate was co-hosted by Case Western Reserve University and the Cleveland Clinic.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Í fyrstu forsetakappræðunum vestanhafs var spurt um loftslagsmál í fyrsta sinn í 20 ár

Ítök olíufyrirtækja og sérhagsmunir þeirra eru fremsta ástæða þessarar ærandi þagnar um loftslagsmál vestanhafs að mati Sveins Atla Gunnarssonar, ritstjóra vefritsins loftslag.is. Þau hafi hreiðrað um sig í framlínu loftslagsumræðunnar þannig að þau hafi haft mikil áhrif á það hvort og á hvaða forsendum ráðamenn ræða um loftslagsbreytingar og aðgerðir.

Það er sem sé á brattann að sækja og kórónuveirufaraldur hefur sett allt úr skorðum ofan á allt saman. Öll alþjóðleg umræða snýst með einum eða öðrum hætti um áhrif faraldursins, bæði til langs og skamms tíma. Veiran hefur hægt á gangi heimsins ef svo má segja, viðskipti og samgöngur hafa tekið miklum breytingum sem hefur leitt til minni kolefnislosunar á heimsvísu. En það vakna vissulega spurningar um framhaldið. Hvernig verður umræðum háttað á næstu mánuðum og eru áhrif veirunnar á loftslagsbreytingar varanlegar? Loftslagsbreytingunum sjálfum verður í það minnsta ekki slegið á frest þótt margt annað hafi þurft að bíða betri tíma. 

Fiona Harvey, umhverfisblaðamaður hjá Guardian hefur fylgst með loftslagsumræðunni síðan 2004 og skrifað ítarlegar fréttaskýringar. Hún segir að áhrif veirunnar á loftslagsmálin séu töluverð. Skriðþungi þeirra aðgerða sem hafa verið áberandi undanfarin ár hafi farið dvínandi vegna takmarkanna sem ríki heims hafa sett til þess að sporna við veirunni. Mótmæli hafa ekki verið jafn sterk einfaldlega vegna þess að fólk hefur dregið sig í skelina. Þegar útgöngubann margra ríkja var sem strangast nú í vor varð skyndilegur samdráttur í kolefnislosun. Sum ríki sáu þriðjugs samdrátt og heildarsamdráttur á heimsvísu í apríl varð 17 prósent. En það kom fljótt í ljós að þau áhrif vörðu skammt og losunin reis aftur og náði sínu gamla fari og fyrr en áætlað var. Bæði vegna afléttingu útgöngubanns en líka vegna þess að fólk forðaðist almenningssamgöngur og notaðist frekar við einkabílinn. Við verðum því að vera á varðbergi og ekki hægt að segja að veiran hafi haft góð áhrif á loftslagið. 

epa08731151 Fridays For Future activists demonstrate during the global climate action day in Turin, Italy, 09 October 2020.  EPA-EFE/Alessandro Di Marco
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Veiran hefur sett loftslagsmótmæli úr skorðum eins og annað.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP26, átti að fara fram í Skotlandi á þessu ári en var frestað til næsta árs. Mikið hefur verið talað um að ráðstefnan sé illa undirbúin af stjórnvöldum og nú er stóra spurningin hvað stjórnvöld ætla að ræða. Síðasta ráðstefna, COP25, var vonbrigði. Að minnsta kosti að mati Antonios  Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. COP25 var haldin í Madríd á Spáni í lok síðasta árs. Guterres sagði að tækifærin til að takast á við loftslagsvána væru glötuð. Erfitt er að álykta sem svo að von hafi kviknað í millitíðinni.

Heimsfaraldurinn verður til umræðu á COP26 að mati Fionu Harvey. En aðalmálið á dagskrá verður Parísarsáttmálinn og markmið hans. Hún segir þó að eins og staðan er núna munum við ekki í rétta átt. Þær skuldbindingar sem þjóðir heims settu sér eru einfaldlega ekki nóg. Ef eingöngu yrði farið eftir þeim missum við tökin á loftslagsbreytingunum. Markmiðið er innan við 2 gráður, helst eina og hálfa. Það er ekki að fara gerast. Það þarf því að setja enn strangari markmið. Sumar þjóðir hafa þó gert það. Kína hefur sett markið hátt, að hámark kolefnislosunar verði nú í ár og að ríkið nái kolefnishlutleysi árið 2060. Það eru stór orð frá stærsta mengunarvaldi heims. Evrópusambandsríki hafa sömuleiðis sagst ætla að draga samtals úr losun um að minnsta kosti 55% árið 2030. Eitt áberandi land vantar á þennan lista. Bandaríkin eru annar stærsti losunarvaldur heims og ríkisstjórn Trump eins og þegar er vitað, ætlar út úr Parísarsáttmálanum.

Harvey birti grein í Guardian í byrjun þessa mánaðar sem fjallar um leynilegar viðræður milli olíufyrirtækja á borð við BP og Shell og breskra stjórnvalda, í þeirri von að koma fyrirtækjunum að ráðstefnunni sem styrktaraðilum. Rökin fyrir þessu, að mati skipuleggjenda COP26, eru að þeir sem vilja breyta til betri vegar þegar kemur að umhverfismálum og stefna í átt að kolefnishlutleysi ættu að fá tækifæri til þess að koma að borðinu. Shell lýsti því yfir fyrr á árinu að árið 2050 og jafnvel fyrr stefni fyrirtækið á að verða orðið kolefnishlutlaust með viðsnúningi á orkustefnu sinni. Svipaða sögu er að segja um BP.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Olíufyrirtæki vilja verða styrktaraðilar á COP26.

Þetta hafa aðgerðasinnar gagnrýnt og benda á að víða sé pottur brotinn í undirbúningi ráðstefnunnar. Fyrirtæki sem hagnist á vinnslu jarðefnaeldsneyta ættu ekki að fá að nýta þetta tækifæri til þess að grænþvo ímynd sína. En það er ekkert nýtt og ekkert óvenjulegt að mati Fionu Harvey að COP ráðstefnur hafi styrktaraðila. Það sem sé aftur á móti sláandi sé að olíufyrirtæki ætli að reyna að leika stórt hlutverk. 

Fyrirtækin munu þurfa að gera þær breytingar sem fyrirtækin hafa lofað um samdrátt losunar til þess að ná stóru markmiðunum. En oft eru fjárfestingar í endurnýjunlegri orkuþróun sem fyrirtækin segjast vera að gera aðeins brot af heildarmyndinni, restin fer í að finna meira jarðefnaeldsneyti. Og það þarf að draga þau til ábyrgðar að mati Harvey.

Ljóst er að þjóðir heims þurfa að endurskoða sína stefnu í loftslagsmálum. Markmiðin sem sett voru í París árið 2015 eru einfaldlega ekki nóg. Og hvort það gerist á ráðstefnunni á næsta ári eða ekki er jafn óljóst og ófyrirsjáanlegt og heimsfaraldur.