Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hlutdeildarlán - fáar íbúðir virðast í boði

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Hámarksverð nýrra íbúða í reglugerðardrögum um hlutdeildarlán er svo lágt að erfitt er að finna fasteignir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem uppfylla skilyrðin. Tekjulágir geta sótt um hagstæð hlutdeildarlán um mánaðamótin. Þau eru hluti af lífskjarasamningunum. 

Í stuðningi stjórnvalda við lífskjarasamninginn vorið 2019 er rætt um hlutdeildarlán til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu íbúðakaup. Reglugerðardrögin voru birt á samráðsgátt stjórnvalda í vikunni og hægt að gera athugasemdir til 20. október. 

Þarf hvorki að greiða vexti né afborganir

Gert er ráð fyrir að lánað verði fyrir 400 íbúðum á ári eða fyrir samtals fjóra milljarða króna. Kaupandi þarf að eiga fyrir 5% af kaupverði, taka lán fyrir 75% og Húsnæðis- og mannavirkjastofnun lánar svo 20% í hlutdeildarlán. Kaupandinn þarf hvorki að greiða vexti eða afborganir af hlutdeildarláninu. Ef kaupandi selur þarf hann að endurgreiða lánið eða eftir tíu til 25 ár búi hann þar áfram. Ýmis ströng skilyrði eru í reglugerðinni eins og hvað varðar verð og stærð.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Álalækur á Selfossi.

Í fjölbýlishúsi við Álalæk á Selfossi verða þriggja til fjögurra herbergja íbúðir og þær verða frá rúmlega 33 milljónum króna upp í tæplega 40 milljónir. Til kaupa á þeim væri hægt að fá hlutdeildarlán fyrir þeim. Staðsetningin er hins vegar utan höfuðborgarsvæðisins en þar er eftirspurnin mest. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Aldinmörk í Hveragerði.

Við Aldinmörk í Hveragerði eru margar íbúðir í byggingu sem falla innan stærðar- og verðmarka reglugerðarinnar. Það sama á við um margar aðrar íbúðir á landsbyggðinni sem nú eru til sölu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Elliðabraut á Norðlingaholti.

Málið vandast þegar komið er á höfuðborgarsvæðið að finna nýjar íbúðir sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar. Við Elliðabraut í Norðlingaholti er íbúð með tveimur svefnherbergjum sem uppfyllir skilyrðin. En svo er líka önnur en hún uppfyllir ekki skilyrðin þó að hún sé ódýrari því að hún er of lítil. Sú síðarnefnda er reyndar bara með einu svefnherbergi. Hún kostar 37,9 milljónir og er 53,5 fermetrar. Íbúðin sem uppfyllir skilyrðin er 77 fermetrar, tveggja svefnherbergja og kostar 45,9 milljónir, rétt innan við verðmörkin. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Hámarksverð og stærð íbúða á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt drögum að reglugerð.

Á höfuðborgarsvæðinu er hámarksverð nýrra íbúða samvkæmt drögunum hærra en á landsbyggðinni.

50 fermetra stúdíóíbúð má kosta 32 milljónir að hámarki. Svo er verðið tvenns konar fyrir íbúðir með einu svefnherbergi en það fer eftir stærðinni. Það sama á við um tveggja svefnherbergja íbúðir. Þriggja svefnherbergja íbúð má kosta mest 54 milljónir og fjögurra svefnherbergja 58 og hálfa milljón króna.

Ekki er vitað hvort þeir sem byggt hafa þessar íbúðir sem hér hafa verið nefndar hafi gert samning við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um að íbúðirnar verði fjármagnaðar með hlutdeildarlánum en kveðið er á um það verði gert í reglugerðardrögunum. 

Auk reglugerðardraganna á samráðsgáttinni má finna upplýsingar um hlutardeildarlánin á hlutdeildarlan.is.