Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Guðmundur á Núpum hlýtur tveggja ára dóm

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur A. Birgisson, oftast kenndur við bæinn Núpa í Ölfusi, var dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands 1. október. Guðmundur játaði sök þegar málið var tekið fyrir í síðasta mánuði. Hann var dæmdur fyrir 300 milljóna króna skilasvik og peningaþvætti.

Guðmundur var umfangsmikill fjárfestir á árunum fyrir hrun. Hann átti meðal annars hlut í Lífsvali, einu stærsta jarðafélagi landsins. Hann var úrskurðaður gjaldþrota í desember 2013. Honum var gefið að sök að hafa haldið frá skiptastjóra þrotabús síns eignum sem hann átti á Spáni og í Bandaríkjunum og komið undan málverki eftir hollenskan listmálara sem síðar var selt hjá uppboðsfyrirtækinu Christie's í Amsterdam fyrir tæpar þrjár milljónir króna.

Í dómnum segir að hæfileg refsing í málinu sé tveggja ára fangelsi. Vegna skýlausrar játningar Guðmundar og verulegs dráttar á meðferð málsins á rannsóknarstigi þykir dómara rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og fella hana niður ef Guðmundur heldur almennt skilorð. Hann er jafnframt dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, rúmar 800 þúsund krónur.