Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Friðsamlegt unglingateiti og fall í blauta steypu

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Maður nokkur varð fyrir því óhappi síðdegis í gær að aka rafskútu inn á nýsteypt og sléttað bílaplans og detta í blauta steypuna. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Starfsmennirnir sem lagt höfðu planið skoluðu steypuna af manni og skútu. Sjúkralið mætti á staðinn, hlúði að manninum og sendi hann loks heim í sturtu.

Þrettán unglingar á aldrinum 16 til 18 ára komu saman í teiti í fjölbýlishúsi á Seltjarnarnesi í gærkvöldi. Gestgjafinn var aðeins sextán ára sjálfur og foreldrar hans ekki heima. Í dagbók lögreglu kemur fram að áfengislykt hafi verið í húsinu og merki um að áfengis hafi verið neytt.

Jafnframt segir að ungmennin hafi verið kurteis og samvinnuþýð við lögreglu þegar hana bar að og lofað að halda heim á leið. Foreldrar gestgjafans fengu fullorðna manneskju til að líta til með gestgjafanum unga.

Lögregla mun gera hvað hún getur að ná sambandi við foreldra þeirra sem yngri eru en sextán og tilkynna málið til Barnaverndar.

Innbrotsþjófur hafði ekki erindi sem erfiði þegar hann braust inn í verslun á Granda eftir miðnætti. Hann fór tómhentur á brott eftir að hafa spennt upp hurðir og reynt að brjóta upp peningaskáp.

Ökumaður ók bifreið sinni á grjót af stærri gerðinni í efri byggðum Reykjavíkur í gærkvöld. Ökumaðurinn lét sig hverfa af vettvangi en sneri til baka að sækja eitthvað í bílinn. Þar beið hans lögregla, tók hann höndum grunaðan um akstur undir áhrifum fíknefna og vistaði hann í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Sextán ára stúlka var stöðvuð í nótt þar sem hún ók um Kringlumýrarbraut með fjóra farþega í bílnum. Þau voru öll lítið eldri en ökumaðurinn sem hefur ekki réttindi til að aka bifreið.

Hún reyndi að villa á sér heimildir með því að gefa upp ranga kennitölu en samkvæmt því sem fram kemur í dagbók lögreglu kom hið sanna fljótt í ljós. Öll voru ungmennin flutt á lögreglustöð, foreldrar þeirra sóttu þau en málið verður tilkynnt til Barnaverndar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV