Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Forvarnir og geðrækt í sögufrægu húsi

10.10.2020 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fimmtungur unglingsstúlkna í Kópavogi á aldrinum fjórtán til sextán ára hefur reynt að skaða sig sjálskaða og tólf prósent drengja, eða yfir tvöhundruð börn. Í dag var kynnt nýtt úrræði á vegum bæjarins, þar sem sinna á lýðheilsu og geðrækt, ekki síst meðal ungmenna.

Alþjóðlegi geðhelbrigðisdagurinn er í dag. Vegna ástandsins fór dagskráin að mestu fram rafrænt og er þemað í ár geðheilbrigðisþjónusta fyrir alla. Í tilefni dagsins kynnti Kópavogsbær að hressingarhælið í Kópavogi verði nýtt í þágu lýðheilsu og geðræktar. Þar á að hlúa að andlegri líðan barna, ungs fólks og annarra sem þurfa.

„Þetta verður fyrst og fremst fyrsta stigs forvarnarstarf enda sýna rannsóknir það, bæði hérlendis og erlendis, að það sé mjög mikilvægt að grípa snemma inn í ef að börn, til dæmis, sýna merki um eitthvað óyndi eða depurð að grípa þá inn í snemma til þess að reyna að draga úr líkum á stærri vandamálum í framtíðinni,“ segir Anna Elísabet Ólafsdóttir sérfræðingur  í lýðheilsumálum í Kópavogsbæ.

Hún segir bæinn hafa svokallað mælaborð til að fylgjast með líðan og lífsgæðum barna og ungmenna í bænum og er þar meðal annars stuðst við gögn frá Rannsóknum og greiningu og Skólavoginni. Tölur eru um sjálfskaða hjá 12% drengja og 20%  stúlkna á aldrinum 14 til 16 ára.

„Og þetta eru ekki bara eitt, tvö eða þrjú börn þetta eru meira en 200 börn og miklu fleiri sem hafa íhugað þetta, þannig að þetta er oft ákall um aðstoð og hjálp og það þarf kannski ekki mjög mikið til þess að leiða þau frá þessu og hjálpa þeim.“

Aðstaðan þarna mun því nýtast í því starfi. Anna Elísabet segir að unnið verði með fagfólki og vonast sé eftir samstarfi við heilsugæsluna og ekki síst samstarfi barna og ungmenna og heyra hvar þau sjá þörfina. Þá eru uppi hugmyndir að fagfólk geti leigt aðstöðu í húsinu. Húsið sjálft á sér nærri hundrað ára sögu, teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Þangað komu berklasjúklingar eftir dvöl á Vífilsstöðum til að jafna sig og á stríðsárunum var þar holdsveikraspítali og síðar Þroskaþjálfaskólinn. Og enn fær það nýtt hlutverk.

„ Nú hefst nýr kafli hjá okkur, við hlökkum bara til.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV