Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Delta kominn til Louisiana

10.10.2020 - 07:08
Mynd: EPA-EFE / EPA
Fellibylurinn Delta náði landi í Louisiana í gærkvöld með tilheyrandi hávaðaroki og stórhættulegum áhlaðanda, að sögn Fellibyljamiðstöðvar Bandaríkjanna, NHC. Delta varð tíundi fellibylurinn sem kemur á land í Bandaríkjunum þetta árið, og hafa þeir aldrei verið fleiri síðan mælingar hófust, hefur AFP fréttastofan eftir veðurfræðingum.

Delta telst vera á öðrum styrkleika af fimm á fellibyljaskalanum. Vindhraði nær allt að 43 metrum á sekúndu. Hann kom að landi nærri Creole í Louisiana, og fylgja honum rúmlega tveggja metra háar öldur við strendur ríkisins.

Götur borgarinnar Lake Charles voru tómar í gær. Hún varð illa fyrir barðinu á fellibylnum Láru í ágúst og er nú í vegi Delta. Hreinsunarstarfi eftir Láru er ekki enn lokið í borginni, og óttast íbúar að híbýli þeirra verði horfin þegar þeir snúa aftur heim eftir Delta. Lára var þó öllu kröftugri, eða af fjórða styrkleika.

Áður en Delta kom til Bandaríkjanna hafði hann riðið yfir Júkatan-skaga í Mexíkó. Þar hreif hann með sér tré og sleit rafmagnslínur, en olli annars ekki miklum skemmdum á mannvirkjum. Enginn lét lífið í Mexíkó af völdum fellibylsins. 

Delta er 26. lægðarkerfið á Atlantshafinu sem hlýtur nafn þetta árið. Þetta er aðeins í annað sinn síðan byrjað var að nefna storma að þörf sé á að fara yfir í gríska stafrófið.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV