Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Biðst afsökunar á að hafa farið í golf í Hveragerði

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spilaði golf á golfvellinum í Hveragerði í dag í trássi við tilmæli Golfsambands Íslands og Golfklúbbs Hveragerðis. Mbl.is greinir frá þessu.

Golfklúbbur Hveragerðis tilkynnti á Facebooksíðu sinni í gær að vellinum yrði lokað fyrir öðrum en félagsmönnum frá hádegi 9. október. Golfsambandið sendi jafnframt frá sér tilmæli um að kylfingar á höfuðborgarsvæðinu leiti ekki til golfvalla utan þess til að fara í golf.

Þorgerður segir í samtali við mbl.is að þetta sé óafsakanlegt í ljlósi tilmæla. Hún sagðist þó ekki hafa farið sérstaklega austur til þess að fara í golf. Hún hafi dvalið í húsi sínu í Ölfusi frá því í gær, og sé þar yfirleitt þegar hún er ekki í Hafnarfirði. 

Í tilkynningunni á Facebooksíðu Golfklúbbs Hveragerðis segir að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu og tilmæla frá almannavörnum hafi verið ákveðið að loka Gufudalsvelli fyrir öðrum en félagsmönnum Golfklúbbs Hveragerðis frá hádegi 9. október. Skilaboð frá almannavörnum um lokun valla á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni séu skýr og eru félagar búsetti á höfuðborgarsvæðinu beðnir um að virða lokunina.

Þorgerður baðst afsökunar í kvöld í færslu á Facebook. Hún segir þetta hafa verið yfirsjón af hennar hálfu og aldrei hafi staðið til að fara framhjá neinum reglum. Þetta hafi verið mistök sem hún lærir af.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV