Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vinnsla lögreglu á upplýsingum um Aldísi Schram ólögmæt

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Vinnsla Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á persónuupplýsingum um Aldísi Schram samrýmdist hvorki lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga né reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar.

Aldís kvartaði til Persónuverndar í kjölfar þess að Jón Baldvin Hannibalsson, faðir hennar, gerði opinbert skjal Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kom að lögreglan hefði nokkrum sinnum á undanförnum árum haft afskipti af Aldísi eða sinnt verkefnum vegna hennar. Í skjalinu kom einnig fram að Bryndís Schram, móðir Aldísar, og Jón Baldvin hefðu „aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi hennar vegna“, og að það staðfesti Hörður Jóhannesson, þáverandi aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, með undirskrift. 

Í kvörtun Aldísar segir að Jón Baldvin hafi í Silfrinu á RÚV þann 3. febrúar 2019 „gerst sekur um að flagga framan í áhorfendur, sér til málsvarnar, skjali „lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu“ - sem hann síðan birti í grein sinni í Morgunblaðinu þann 7. febrúar“ sama ár.

Mátti ekki veita óviðkomandi aðilum skjalið 

Aldís kvartaði til Persónuverndar á þeim grundvelli að hún teldi að Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefði ekki verið heimilt að veita óviðkomandi aðilum þær persónuupplýsingar sem skráðar voru í skjalinu sem embættið gaf út. Í kvörtun Aldísar kemur fram að hún telji að Hörður Jóhannesson hafi gerst sekur um brot á þagnarskyldu. 

Í úrskurði vegna málsins bendir Persónuvernd á að einstaklingar verði almennt að geta treyst því að upplýsingum sem lögregla skráir um verkefni sem hún sinnir vegna þeirra verði ekki miðlað til óviðkomandi aðila. Þar sem Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi miðlað umræddum upplýsingum um kvartanda án heimildar hafi embættið ekki unnið upplýsingarnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti gagnvart Aldísi.  

Segir staðhæfingar í skjalinu rangar 

Í kvörtuninni til Persónuverndar skrifar Aldís einnig að staðhæfingin um að Bryndís og Jón Baldvin hafi aldrei kallað á lögreglu vegna hennar sé röng. Hún vísar til dæmis til þess að hún hafi verið flutt með valdi á geðdeild Landspítalans fyrir beiðni föður síns, sendiherrans, þar sem hún hafi sætt þvingaðri lyfjagjöf og nauðungarvistun í tæpa tvo mánuði. Þá segir einnig að samkvæmt lögregluskýrslu hafi Bryndís hringt í lögregluna vegna Aldísar þann 13. apríl 2002.  

Einnig kemur fram í kvörtun Aldísar að ekki finnist „stafkrókur í gögnum lögreglunnar“ um tilkynningu hennar sjálfrar til lögreglunnar þann sama dag, 13. apríl árið 2002, um að Jón Baldvin hafi brotið á henni kynferðislega. Þá segir að hvorki lögreglan eða lögreglustjóri né ríkissaksóknari hafi orðið við beiðni hennar um að láta í té afritun af tilkynningu hennar. Einnig skrifar hún að á því tímabili sem Hörður Jóhannesson gegndi starfi yfirlögregluþjóns í Reykjavík hafi hún sætt fimm handtökum og að þrjár þeirra hafi verið óskráðar.