Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vildi vara Vegagerðina við

09.10.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Vegfarandi sem átti leið um nýmalbikaðan vegarkafla á Kjalarnesi í sumar reyndi án árangurs að ná sambandi við Vegagerðina til að vara við vegarkaflanum. Hann segir að bæta þurfi aðgengi vegfarenda að Vegagerðinni utan skrifstofutíma.

Alvarlegt umferðarslys varð í sumar á Kjalarnesi þar sem klæðning hafði verið lögð skömmu áður. Tvö létust í slysinu. Malbikið stóðst ekki kröfur í útboði Vegagerðarinnar, hvorki um holrýmd né viðnám. Það var endurnýjað auk þess sem ný klæðning var lögð á fleiri vegkaflar aftur af sömu ástæðu.

Fjallað var um vegamál í Kveik í gærkvöld. Vilhjálmur Ari Arason læknir, sem hefur látið sig umferðaröryggi varða, var á ferð um Kjalarnes tveimur dögum fyrir slysið. Hann fann strax að ekki var allt með felldu og taldi að bíllinn væri bilaður. Daginn eftir keyrði bíll út af á sama kafla og þá segist Vilhjálmur hafa kveikt á perunni og áttað sig á að eitthvað væri að malbikinu. Hann hafi reynt að ná sambandi við Vegagerðina án árangurs en bent lögreglunni á að vegurinn væri stórhættulegur og að bregðast þyrfti við. Daginn eftir varð banaslys á veginum.

„Aðgengið að Vegagerðinni var ekkert þarna um helgina, ekki beint aðgengi með síma og lögreglan á fullt í fangi með að sinna sínum verkefnum, en hún þarf líka að forgangsraða. Þegar það er svona mikil vá framundan á þjóðvegi þar sem bílar eru, og bílstjórar og farþegar eru í stórhættu þá er það mikill ábyrgðarhluti að horfa fram hjá því.“