Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þarf aðeins einn neista svo að menningararfur glatist

09.10.2020 - 13:32
Mynd: RÚV / RÚV
Það má ekki mikið útaf bregða til að stórkostleg menningarverðmæti fari í súginn, miðað við í hvernig aðstæðum þau eru varðveitt. Þetta segir forseti hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Í Kveik í gærkvöld var fjallað um að íslensk menningarverðmæti væru víða í hættu. Varðveisluaðstæður og geymslur stærstu safna landsins eru að fyllast og dæmi eru um að þjóðargersemar séu í geymslum þar sem er ekkert slökkvikerfi, eða jafnvel hætta á vatnsflóði. 

„Þetta er auðvitað skelfilegt, því það má ekki mikið útaf bregða, ef að þarna fara stórkostleg verðmæti í súginn. Það hefur auðvitað gerst. Það er ekki eins og við höfum ekki fengið svona varnaðarorð áður.“ segir Guðmundur Hálfdánarson, forseti hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Í umfjölluninni sáust meðal annars málverk eftir meistara íslenskrar myndlistar liggja á gólfinu. Þá eru eldfimar filmur sem geymdar í almennri geymslu innan um annað dót.

„Á meðan þetta er í lagi þá er þetta í lagi, á meðan akkert gerist, en það þarf ekki nema einn neista og þá er kannski menningararfur í einni grein okkar menningar horfinn á svipstundu. Það getur auðvitað gerst, þetta getur gerst í einni svipan og þá er ekki aftur snúið. Það er ekki hægt að endurheimta það sem brunnið er.“ segir Guðmundur. 

Hann segist vona að breyting sé í vændum. 

„Þetta kostar peninga og það er auðvitað það sem slagsmálin standa alltaf um. En ég held að ef við ætlum að vera menningarþjóð. Þá þarf að gera eitthvað í þessu strax. Og það þarf ekkert endilega svo óskaplega dýrt. Ekki miðað við margt annað. Og það þarf ekkert glæsihúsnæði, það þarf bara rétta húsnæðið.“ segir Guðmundur